Ingibjörg H. Bjarnason, alþingiskona og forstöðumaður Kvennaskólans í Reykjavík, fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867. Hún var dóttir Hákonar Bjarnasonar, útgerðarmanns og kaupmanns á Bíldudal og Þingeyri, og k.h., Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur húsmóður. Hákon var sonur Bjarna Gíslasonar, pr. á Söndum í Dýrafirði, og k.h., Helgu Árnadóttur húsfreyju. Jóhanna Kristín var dóttir Þorleifs Jónssonar, prófasts í Hvammi í Hvammssveit, og k.h., Þorbjargar Hálfdánardóttur húsfreyju.
Foreldrar Ingibjargar eignuðust 12 börn en einungis fimm þeirra komust upp. Meðal bræðra Ingibjargar voru Lárus H. Bjarnason, sýslumaður, bæjarfógeti og hæstaréttardómari, og Ágúst H. Bjarnason, doktor í heimspeki, rektor Háskóla Íslands og fyrsti forseti Vísindafélags Íslendinga, faðir Jóns Ólafs Ágústssonar Bjarnasonar verkfræðings, föður Halldórs Jónssonar, verkfræðings og fyrrv. forstjóra Steypustöðvarinnar. Annar sonur Ágústs var Hákon Bjarnason skógræktarstjóri.
Ingibjörg þótti vel menntuð á þeirra tíma mælikvarða. Hún var í námi hjá Þóru, konu dr. Þorvaldar Thoroddsens náttúrufræðings og dóttur Péturs Péturssonar biskups.
Ingibjörg stundaði hún nám í Kaupmannahöfn 1884-1885 og aftur 1886-1893 auk þess sem hún dvaldi erlendis 1901-1903 og kynnti sér þá m.a. skólahald í Þýskalandi og Sviss.
Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var á Alþingi. Hún sat á þingi 1922-1930, fyrst fyrir Kvennalistann eldri, þá fyrir Íhaldsflokkinn og loks Sjálfstæðisflokkinn frá stofnun hans 1929.
Ingibjörg lagði mikla áherslu á byggingu Landspítalans og hennar fyrsta verk þegar hún settist á Alþingi var að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að bygging spítalans yrði sett í algjöran forgang. Á næsta þingi flutti hún aðra tillögu til þingsályktunar með nánari tillögum um tilhögun byggingar Landspítala. Árið 1925 var gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn þá fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Hún var formaður Landspítalasjóðsins frá upphafi til dauðadags. Þetta var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930.
Ingibjörg kenndi við Kvennaskólann i Reykjavík frá 1903 en þá var hann enn til húsa hjá Þóru Melsted í Thorvaldssenstræti, í húsi sem síðar var nefnt Sjálfstæðishús eða Sigtún og loks Nasa. Er skólinn flutti í nýtt húsnæði við Fríkirkjuveg 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og stýrði honum til æviloka.
Ingibjörg H. Bjarnason lést þann 30. október 1941.
Hátíðleg athöfn haldin hinn 19. júní 2015 fyrir framan Alþingi Íslands, þar sem afhjúpuð var stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason. Skráð: Menningar Bakki. |