Þann 1. maí sl. tók gildi ný reglugerð um skoðun ökutækja, sem ætlað er að stuðla að auknu umferðaröryggi. Ákveðin atriði reglugerðarinnar koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2022.
Ýmis nýmæli og breytingar koma fram með reglugerðinni. Sum atriði eiga erindi við alla eigendur og umráðamenn ökutækja en jafnframt eru önnur sem snúa að tilteknum gerðum ökutækja.
Með reglugerðinni eru kröfur og heimildir uppfærðar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.
Meðal þess sem tekið er fram í reglugerðinni er að:
- Ef skráður er umráðamaður fyrir ökutæki ber hann ábyrgð á að færa ökutæki til skoðunar. Annars ber eigandi þá ábyrgð.
- Frá og með 1. janúar 2022 verður hægt að framlengja endurskoðunarfrest vegna skorts á varahlutum eða ef ekki er unnt að fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins.
- Ef óeðlileg breyting hefur átt sér stað á stöðu akstursmælis, t.d. ef eknum kílómetrum fjölgar ekki á milli skoðana, þá færist athugasemd þar um í ferilskrá bílsins.
- Húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna skal færa til skoðunar eins og þau hefðu 5 í endastaf skráningarmerkis. Það þýðir að skoðunarmánuður er maí og skal færa ökutækið til skoðunar fyrir lok júlímánaðar. Heimilt er að færa ökutækið til skoðunar allt að sex mánuðum fyrir skoðunarmánuð.
- Fornökutæki skal færa til skoðunar eins og þær hefðu 5 í endastaf skráningarmerkis. Það þýðir að skoðunarmánuður er maí og skal færa ökutækið til skoðunar fyrir lok júlímánaðar.
- Ökutæki sem öllum stundum eru staðsett í Hrísey, Grímsey eða Flatey á Breiðafirði geta nú farið í notkunarflokkinn eyjaökutæki og fá þau þar með undanþágu frá skoðunarskyldu.