Landsvirkjun hefur ákveðið skerða afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja og stórnotenda sem eru með skerðanlega skammtímasamninga. Sú áhrif kann að hafa áhrif á Vestfjörðum en einkum þá á verð orkunnar á skammtímamarkaði.
Elías Jónatansson, orkubússtjóri segir að Orkubú Vestfjarða sé með marga samninga við Landsvirkjun um orkukaup.
„Í fyrsta lagi er um að ræða nokkrar tegundir samninga um kaup á forgangsorku. Skerðingin hefur því engin áhrif á afhendingu raforku til Orkubúsins samkvæmt þeim samningum og hefur því heldur engin áhrif á afhendingu á forgangsorku til viðskiptavina Orkubúsins. Aukin eftirspurn getur hins vegar haft talsverð áhrif á verð orkunnar og þá sérstaklega á skammtímamarkaði.“
En gæti haft áhrif á orku til fjarvarmaveitna og sundlaugina á Þingeyri
Í öðru lagi þá er Orkubúið með langtímasamning um kaup á skerðanlegri orku til kyntra fjarvarmaveitna á Ísafirði, í Bolungarvík, á Suðureyri, á Flateyri og á Patreksfirði.
Elías segir að Landsvirkjun hafi heimild til að skerða afhendingu á rafmagni samkvæmt þeim samningi, enda ekki um forgangsorku að ræða. Um er að ræða ákvæði sem seljandi getur virkjað hvenær sem er, í lengri eða skemmri tíma. Heildarskerðingin er þó takmörkuð við ákveðið þak í samningnum.
„Ákvæðið, gagnvart rafkyntum fjarvarmaveitum, hefur ekki verið virkjað núna.
Orkubúið er með 100% varaafl í formi olíukatla til að mæta slíkum skerðingum og notendur fjarvarmaveitna myndu því ekki finna fyrir skerðingunni frekar en endranær þegar viðhald fer fram á flutningslínum raforku og grípa þarf til varaafls, svo dæmi sé tekið. Einn viðskiptavinur OV sem er með þríhliða saming við Orkubúið og Landsvirkjun um skerðanlega orku inn á eigin rafskautaketil er ekki með varaafl. það er sundlaugin á Þingeyri. Kæmi til skerðingar yrði sundlaugin á Þingeyri því væntanlega köld.
Komi til þess að Landsvirkjun grípi til skerðingar samkvæmt samningi við Orkubú Vestfjarða um skerðanlega orku til fjarvarmaveitna, gætu áhrifin á afkomu Orkubúsins hins vegar orðið mjög veruleg. Fordæmi eru fyrir því að Landsvirkjun hafi gripið til skerðingar á raforku til rafkyntra hitaveitna Orkubúsins vegna lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum og gerðist það síðast árið 2014. Skerðingin stóð þá í tvo mánuði og varð kostnaðarauki Orkubúsins það ár um 200 milljónir króna vegna kaupa á olíu á olíukatla.“