Umhverfisstofnun vísaði tillögu um friðlýsingu Dranga til Umhverfis- og auðlindaráðherra til ákvörðunar hinn 26. nóvember sl. Fyrrv. umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifaði samdægurs undir friðlýsinguna og að sögn Umhverfisráðuneytisins mun friðlýsingin taka gildi þann 13. desember nk., þ.e. við birtingu í Stjórnartíðindum (B-deild).
Formaður starfshóps um friðlýsingu Dranga og starfsmaður Umhverfisstofnunar Eva B. Sólan Hannesdóttir staðfestir þetta í svari við fyrirspurn Bæjarins besta. Fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum neitaði að skrifa undir friðlýsinguna.
18,7 m.kr. fjárstyrkur
Eva var spurð um stuðning ráðuneytisins við friðlýsinguna og segir í svari hennar að tíðkast hafi innan svæða í umsjá Umhverfisstofnunar að Umhverfisstofnun aðstoði landeigendur Dranga við að setja upp nauðsynlega innviði til að taka á móti gestum en jafnan er sótt um fjármagn til framkvæmda í gegnum landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, sbr. lög nr. 20/2016.
„Sótt var um fyrir Dranga og er komið vilyrði fyrir fjármagni sem nemur kr. 18.740.000 sem koma mun til úthlutunar á næstu tveimur árum. Fjármagnið verður notað til að setja upp hreinlætisaðstöðu á fyrirhuguðu tjaldsvæði og til að brúa tvær hættulegar ár innan verndarsvæðisins, Meyjará og Húsá.“
Kann að hafa áhrif á Hvalárvirkjun
Bæjarins besta innti Umhverfisstofnun eftir því hvort friðlýsingin hefði áhrif á fyrirhugaða Hvalárvirkjun en jarðirnar Drangar og Ófeigsfjörður eru nálægar hvor annarri með jarðirnar Engjanes og Drangavík milli þeirra og athafnasvæði Hvalárvirkjunar er innan Ófeigsfjarðar. Spurningin er hvort áhrifasvæði friðlýsta landsins á Dröngum nái yfir á virkjunarsvæðið í Ófeigsfirði.
Eva sagði að um væri að ræða friðlýsingu á óbyggðu víðerni og að hún teldi ekki að friðlýsingin hefði áhrif á fyrirhugaða virkjun en hins vegar væri samkvæmt lögum um Náttúruvernd skylt takmarka framkvæmdir í nálægð við friðýsta svæðið sem gætu haft áhrif á það.
Orðrétt hljóðar svarið þannig:
„Um er að ræða friðlýsingarflokkinn óbyggt víðerni. Samkvæmt skilgreiningu 19. tölul. 5. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd á óbyggðu víðerni, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr 43/2020, er óbyggt víðerni: „svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.“
Ekki verður því séð að friðlýsingin rekist sérstaklega á við fyrirhugaða Hvalárvirkjun en hins vegar kann 54. gr. laga nr. 60/2013 að koma til skoðunar. Ákvæðið áskilur að ef starfsemi eða framkvæmdir utan friðlýsts svæðis, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, geta haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Setja má skilyrði til að koma í veg fyrir skaða af starfseminni eða framkvæmdunum á hinu friðlýsta svæði. Um aðra starfsemi og framkvæmdir (þ.e. sem ekki eru leyfisskyldar skv. öðrum lögum) gildir aðgæsluskylda skv. 6. gr. náttúruverndarlaga.“
Fréttin uppfærð kl 17:16 með betri staðháttarlýsingu.