Útflutningsverðmæti eldislax er komið í rúma 23,3 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins.
Það er 49% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra.
Í erlendri mynt er aukningin aðeins meiri, eða rúm 52%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði rúmlega 2% sterkara í ár en á sama tímabili í fyrra.
Inn í þessum tölum er útflutningsverðmæti frjóvgaðra laxahrogna ekki meðtalið en þau nema um 2,1 milljarði króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um fjórðungi meira á föstu gengi en á sama tímabili í fyrra.
Hefur eldislax, án frjóvgaðra hrogna, skilað næstmestum útflutningsverðmætum í ár af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi, og bendir allt til þess að þetta verði annað árið í röð sem hann vermir það sæti. Vandséð er annað en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum og að hann muni festa sig rækilega í sessi sem annar verðmætasti fiskurinn, á eftir þorskinum.
Að sjálfsögðu geta aðrar fisktegundir bætt við sig, eins og loðnan sem mun eflaust toppa laxinn á næsta ári. En, þegar veitt er úr náttúrulegum stofnum er magnaukning þeirra eðlilega miklu óvissari.