Arnarlax: öll gjöld greidd vegna sláturskipsins

Í yfirlýsingu frá Arnarlax kemur fram að laxi sem slátrað var í febrúar 2020 í sláturskipinu Norwegan Gannet var landað á Bíldudal og hann tekinn í gegnum vinnsluna á Bíldudal. Því hafi öll gjöld verið greidd til sveitarfélagsins sem lögum samkvæmt ber að gera.

Tilefni yfirlýsingarinnar er frétt á RÚV og samþykkt sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem Bæjarins besta greindi frá í morgun.

Yfirlýsingin í heild:

Arnarlax hefur aldrei nýtt sér þjónustu vinnsluskips án þess að greiða lögboðin gjöld

Í tilefni fréttar RÚV og yfirlýsinga formanns Hafnasambands Íslands vill Arnarlax koma því á framfæri að þegar félagið nýtti sér þjónustu skipsins Norwegian Gannet í febrúar 2020 var öll uppskeran tekin í gegnum vinnslu félagsins á Bíldudal.

Þá voru öll gjöld sem lögum samkvæmt á að greiða vegna þjónustu sveitarfélaga, greidd til Vesturbyggðar. Því er ekki rétt sem haldið er fram í frétt RÚV að þjónustuskip hafi tvívegis komið í Arnarfjörðinn án þess að Vesturbyggð hafi fengið til sín lögbundnar greiðslur. Fyrir liggur að Arnarlax hefur aldrei nýtt sér þjónustu vinnsluskips án þess að greiða lögboðin gjöld.

Eins og fram kemur á fréttavefnum BB.is greiddu Arnarlax og Arctic Fish um 160 milljónir í hafnargjöld til sveitarfélaga í fyrra. Heildaruppskera félaganna sem fer um höfnina á Bíldudal er áætluð um 25-26 þúsund tonn í ár, sem er allt að 40% aukning frá fyrra ári.

Þess má að lokum geta að sömu lög gilda um ferðir svokallaðra brunnbáta (sem þjónustuskipin falla undir) og annarra alþjóðlegra skipa, auk þess sem afla þarf heimildar Matvælastofnunar fyrir slíkum verkefnum.

DEILA