Vesturbyggð hefur ákveðið að gera deiliskipulag fyrir Brjánslækjarhöfn við Breiðafjörð. Tilgangur þess er að búa til skipulagsramma utan um byggðina og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á næstunni s.s. stækkun hafnargarðs til að bæta smábátaaðstöðu, uppbygging þjónustu í tengslum við ferðamenn ásamt annarri uppbyggingu.
Skipulagslýsing hefur verið samþykkt og verður nú auglýst.
Í deiliskipulaginu verður m.a. gert ráð fyrir nýjum varnargarði u.þ.b. 123 m að lengd og breikkun á núverandi varnargarði. Núverandi flotbryggja fyrir smábáta verður færð frá suðri til norðurs í skjól við nýjan varnargarð. Gamla ferjubryggjan verður fjarlægð.
Grjót í Hafnargarðinn verður sótt í námuna við Þrælavog. Einnig verði notað grjót sem tekið er upp innan hafnar flokkað og notað í garðinn.
Í tengslum við ferðaþjónustu og ferjusiglingar er gert ráð fyrir uppbyggingarmöguleikum vestan og ofan við núverandi fiskvinnsluhús, þar sem gert verður ráð fyrir byggingareit ásamt bílastæðum.
Í framtíðinni getur þá núverandi þjónustu- og afgreiðsluhús fyrir ferjuna flutts niður fyrir veg. Í deiliskipulaginu verður gert ráð fyrir landfyllingu austan við núverandi fiskvinnsluhús með möguleika á viðbyggingu og fyrir stærra athafnasvæði. Rör eða háfur verður reistur fyrir hausaþurrkunarstöðina og skal hæð hans vera ákveðin í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða.
Gert er ráð fyrir að deiliskipulaginu verði lokið með staðfestingu Skipulagsstofnunar í maí/júní 2022.