Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að auglýsa vinnslutillögu að verndarsvæði í byggð fyrir gamla bæinn á Skutulsfjarðareyri og Neðstakaupstað á Ísafirði, á grundvelli 5. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.
Verndarsvæði í byggð er byggð innan afmarkaðs svæðis sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt ákvörðun ráðherra og sveitarstjórnar. Í greinargerð um verkefnið segir
„Gamli bærinn á Skutulsfjarðareyri og Neðstikaupstaður er einstakt svæði þar sem varðveist hefur gríðarlegt magn gamalla húsa frá fyrstu árum þéttbýlismyndunar á Íslandi. Svæðið er jafnframt nátengt hjarta Ísafjarðar og mikilvægur hluti miðsvæðis bæjarins. Ísafjarðarbær leggur áherslu á að stuðla að vernd og varðveislu byggðarinnar enda
mikil menningarverðmæti í henni fólginn.
Ísafjarðarbær fékk styrk úr húsafriðunarsjóði til að vinna tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um að Neðstikaupstaður og gamli bærinn verði gerð að verndarsvæði í byggð.“
Svæðið sem lagt er til að verði gert að verndarsvæði í byggð er á Skutulsfjarðareyri í þéttbýli Ísafjarðar. Afmörkun þess nær annars vegar til innri hluta byggðarinnar á Eyrinni og hinsvegar til svæðisins sem umkringir Neðstakaupstað á Suðurtanga. Svæðinu má einnig skipta gróflega í þrennt eftir gömlu verslunarstöðunum sem þau tengjast; Neðstakaupstað, Miðkaupstað og Hæstakaupstað.
Afmörkun svæðisins nær til þess svæðis sem geymir elstu byggð Ísafjarðar. Þar er að finna menningarsögulega mikilvægt byggðamynstur sem endurspeglar svipmót byggðar á ýmsum tímum í þéttbýlissögu landsins. Afmörkunin endurspeglar jafnframt upprunalega strandlínu Skutulsfjarðareyrar áður en landfyllingar fóru að setja svip á umhverfi eyrarinnar.
Greinargerðin í heild sinni: Neðstikaupstaður og gamli bærinn á Eyrinni