Þrátt fyrir að vera ekkert jólabarn þá finnst mér laufabrauð alveg ómissandi og eiginlega það sem mér finnst best við jólin. Ég er ekki alin upp við laufabrauð heldur kynntist því á fullorðinsárum. Tvær uppskriftir eru í uppáhaldi hjá mér, það klassíska og svo ein sem mér áskotnaðist úr Svarfvaðardal og ég held að Ísfirðingum líka hún betur þar sem hún inniheldur kúmen og er því bragðmeiri.
Aðferðin er sú sama bara munur á innihaldsefnum og ekki bæta kúmeninu í fyrr en í restina.
Klassíska laufabrauðið
Uppskrift (u.þ.b. 20-22 kökur)
500 gr. hveiti
3 dl. mjólk
1/2 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
4 tsk. smjör
3 tsk. sykur
Plöntufeiti til steikingar
Laufabrauð úr Svarfvaðardal
Um það bil 35-45 stk.
600 g hveiti
400 g heilhveiti
1 tsk hjartasalt
3 msk sykur
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
60 g smjörlíki
2 msk kúmen (mæla ómalað)
8 1/2 dl nýmjólk
Aðferð
Hitið mjólk og smjör saman að suðu, kælið síðan þar til hitastigið verður um það bil 37°C. Bætið hveiti, salti, sykri og lyftidufti út í mjólkurblönduna. Hnoðið þar til deigir er mjúkt – þetta má gera kvöldið áður en kökurnar eru skornar. Búið til rúllu úr deiginu og deilið því í um það bil 20-22 jafna parta. Fletjið hvern part mjög þunnt út, skerið síðan í hring undan kökudiski með kleinujárni eða pizzuhjóli. Skerið hverja köku út með laufabrauðsjárni og skreytið af hugans list. Notið beittan hníf til að lyfta hornunum á mynstrinu. Pikkið þær létt með gaffli.
Bræðið plöntufeitina í góðum potti. Þegar feitin er orðin nægilega heit, eru kökurnar steiktar í feitinni.
Best er að snúa skurðhliðinn fyrst niður, þegar sú hlið er farin að taka lit er kökunni snúið við og steikt áfram þar til gullinbrún. Þá er kakan tekin upp úr feitinni og látið renna af henni mesta feitin yfir pottinum. Leggið síðan á eldhúspappír og slétt pottlok lagt ofan á kökuna. Þegar kökurnar eru allar steiktar eru þær kældar og síðan raðað í box með pappír á milli – kökurnar geymast vel í lokuðu íláti.
Verði ykkur að góðu.