Skipulagsstofnun hefur valdið nokkrum vanda hjá stjórnvöldum varðandi leyfisveitingar til fiskeldis með sinnaskiptum stofnunarinnar í afstöðu til þess hvort burðarþolsmats- og áhættumatsáætlanir þurfi að fara í umhverfismat.
Hefur það leitt til þess að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur frestað því að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum sem varða útgáfu leyfa til sjókvíaeldis. Atvinnuvegaráðuneytið hefur brugðist við með því að leggja fram í samráðsgátt stjórnvalda umhverfismatsskýrslu fyrir útgefin burðarþols- og áhættumöt á landinu. Almenningi er gefinn frestur til 6. desember næstkomandi til að koma að umsögn. Óljóst er hvenær úrskurðarnefndin telur sig geta afgreitt fyrirliggjandi deilumál.
Fyrir nefndinni er kæra frá nokkrum veiðifélögum og náttúruverndarfélögum á útgefið starfsleyfi til 10.000 tonna laxeldis í Reyðarfirði til Laxa ehf. Landssamband veiðifélaga óskaði eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort burðarþolsmat væri háð umhverfismati áætlana. Úrskurðarnefndin varð við því og taldi nefndin rétt að bíða með málið þar til niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir. Skipulagsstofnun gaf út sitt álit 13. október sl. og komst að þeirri niðurstöðu burðarþolsmat og áhættumat féllu undir ný lög um umhverfismat áætlana sem tóku gildi 1. september sl. Fleiri kærumál bíða afgreiðslu nefndarinnar meðal annars um leyfi í Ísafjarðardjúpi og frestast þau meðan þetta nýja ferli er í gangi.
Landssamband veiðifélaga brást við áliti Skipulagsstofnunar með því að setja fram þá kröfu að öll útgefin leyfi til laxeldis yrðu felld úr gildi. Atvinnuvegaráðuneytið ákvað að láta gera umhverfismatsskýrslu fyrir þegar gerð burðarþolsmöt og áhættumöt til þess að uppfylla álit Skipulagsstofnunar. Er ætlunin að afgreiða kærumálin fyrir úrskurðarnefndinni þegar umhverfismatsskýrslan hefur verið afgreidd og burðarþols- og áhættumatsskýrslurnar þar með uppfylli ákvæði laganna.
Það verður að koma í ljós hvort umhverfismatsskýrslan leiði til þess að burðarþolsmat og áhættumat fyrir einstaka firði á Vestfjörðum og Austfjörðum breytist en það er ekki að sjá í framlagðri skýrslu.
Það sem vekur athygli er að í lögunum sem féllu úr gildi 1. september var Skipulagsstofnun falið að ákvarða hvort umræddar áætlanir um burðarþolsmat og áhættumat ættu að fara eftir lögum um umhverfismat áætlana. Stofnunin beitti því ekki þann tíma sem lögin voru í gildi og því fóru umræddar áætlanir ekki umhverfismat áður en þær voru gerðar.
Eftir að nýju lögin tóku gildi missti Skipulagsstofnun þetta hlutverk sitt, en tók þá óvænt upp á því eftir að Landssamband veiðifélaga bað um afskipti stofnunarinnar í vor í ofangreindi kærumáli, að gefa út það álit sitt í október að burðarþolsmat og áhættumat væru áætlanir sem féllu undir nýju lögin og bæri því að gera umhverfismat. Sá munur er að nú er þetta álit Skipulagsstofnunar en ekki ákvörðun. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat hafi ekki átt undir þágildandi lög um umhverfismat áætlana og því séu leyfin í fullu gildi.
Staða málsins er því sú að úrskurðarnefndinni féllst á að álits Skipulagsstofnunar yrði aflað og einn möguleikinn á lyktum málsins er sá að nefndin ógildi starfsleyfi Laxa ehf, og þar með allra annarra útgefinna leyfa til fiskeldis með þeim rökum að umhverfismat hafi ekki verið framkvæmt á burðarþolsmati og áhættumati viðkomandi eldissvæða.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta mun úrskurðarnefndin fresta afgreiðslu kærumála þar til bætt hefur verið úr með gerð umhverfismatsskýrslu.
Af hálfu samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er í sjálfu sér ekki gerður ágreiningur um að taka upp það verklag að burðarþolsmat og áhættumat fari framvegis í umhverfismat. Það er ekki talið breyta miklu um endanlega umhverfismatsskýrslu fyrir framkvæmdina, þ.e. fiskeldið og ekki seinka leyfisferlinu að ráði. Hins vegar sé það ótækt að breyta um reglu eftir að leyfi hafi verið gefin út og jafnvel ógilda þau.
Segja má að Skipulagsstofnun hefur enn einu sinni tekist að finna stein sem stofnunin leggur fúslega í götu framfaramála.
-k