Framhaldsskólanemar drekka orkudrykki í óhófi

Að beiðni Matvælastofnunar hefur sérstök áhættumatsnefnd rannsakað hvort neysla orkudrykkja, sem innihalda koffín, hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum.

Til að meta hvort neysla íslenskra ungmenna geti verið skaðleg fyrir heilsu er stuðst við viðmiðunarmörk, sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur sett, fyrir annars vegar svefn og hins vegar hjarta- og æðakerfið. Mörkin fyrir hjarta-og æðakerfið eru mishá eftir því hvort um ræðir einstaklinga undir 18 ára aldri eða 18 ára og eldri.

Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í erlendum rannsóknum.

Framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla íslenskra framhaldsskólanema sé meiri en æskilegt er.

Niðurstöður nefndarinnar gefa til kynna að takmarka þurfi aðgengi ungmenna að orkudrykkjum t.d. innan veggja skólanna og á vegum íþróttahreyfinganna og minnka þannig neikvæð áhrif koffíns á heilsu þeirra.

Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar. Tíundi hver framhaldsskólanemi undir átján ára og einn af hverjum fimm yfir átján ára aldri, neytir orkudrykkja daglega.

DEILA