Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var um helgina, gerir þá kröfu við endurskoðun samgönguáætlunar að vegaþjónusta verði gerð að lykilviðfangsefni áætlunarinnar og þá sérstaklega vetrarþjónusta.
„Ekki er lengur við það unað að fjárheimildir fjárlaga rammi inn þjónustuna og gefa lítinn sveigjanleika gagnavart veðurlagi hvers árs eða auknum þörfum atvinnulífs og samfélaga. Gerð er sú krafa að fjármagn verði aukið til verkefnisins og koma á víðtækara samráð um framkvæmd vetrarþjónustu.
Sett verði að framtíðarmarkmiði að lykilviðfangsefnið í vegaþjónustu, að allir byggðakjarnar búi við sólarhringsþjónustu á stofnvegum, óháð íbúafjölda en strjálbýli frá snemma morguns til miðnættis. Slíkt tryggir einnig áætlanir flutningsaðila, þjónustu fyrirtækja innan landshluta og þjónustu fyrirtækja frá höfuðborgarsvæðinu s.s. dagvöruverslanir.
Þjónustustig verði þó strax aukið á Vestfjörðum með tilliti sérstöðu landshlutans þar sem stofnvegir liggja um 14 fjallvegi og eða vegi um ofanflóðavæði, en á síðustu þrem árum hafa þeir lokast að meðaltali um 280 sinnum á ári. Horft verði einnig til mjög hraðs vaxtar í atvinnulífi og samfélögum og þeirrar stöðu að starfsemi fyrirtækja og þjónusta á Vestfjörðum er nú orðin líkt og á höfuðborgarsvæðinu þar sem er „samfélag er aldrei sefur“.
Bætt vegaþjónusta er einnig liður í framkvæmd stefnu í sveitarstjórnarmálum er stefnir á stækkun sveitarfélaga með tilheyrandi fjölgun fjölkjarnasveitarfélaga og tryggir tengingu byggðakjarna innan þeirra.“
Árneshreppi neitað um flutninga á landi
Fjórðungsþing Vestfirðinga bendir í samþykkt sinni um vetrarþjónustu á algjöra sérstöðu samfélagsins í Árneshreppi, „sem er hið eina í landinu, sem er neitað um aðflutninga á landi hluta ársins (janúar – mars) með svokallaðri G reglu í snjómokstri. Reglu sem komið var á í framhaldi af efnahagshruni 2008 en fæst ekki afnumin með vísan til kostnaðarauka (sem hefur verið metinn innan við 20 mkr á ári). Hér er um að ræða, með fyrirvara um mikil snjóalög, að hækka þjónustustig úr G reglu í F reglu sem heimilar mokstur tvisvar í viku. Öðrum samfélögum eru tryggðar ferjusamgöngur ef vegur er ekki í boði, Grímsey, Flatey og Vestmannaeyjar, eða þegar vegir lokast um langa hríð s.s. Mjóafirði eystri.“