Hér gefur að líta skuttogarann Elínu Þorbjarnardóttur ÍS 700 frá Suðureyri á toginu.
Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 var smíðuð í Stálvík hf.við Arnarvog og sjósett 8. mars árið 1977. Hún var smíðuð fyrir Hlaðsvík hf. á Suðureyri en framkvæmdastjóri þess félags var Einar Ólafsson og skipstjórinn á togaranum í upphafi var hinn kunni aflamaður Arinbjörn Sigurðsson.
Elín Þorbjarnardóttir íS 700, sem var þriðji skuttogarinn sem Stálvík hf. smíðaði, var 51,20 metrar að lengd og 9 metrar á breidd. Hún var 375 rúmlestir að stærð búin 2400 hestafla MAK aðalvél.
Árið 1991 eignuðust Hraðfrystihúsið Norðurtangi hf. á Ísafirði og Frosti hf. í Súðavík togarann þegar fyrirtækin keyptu eignir Freyjunnar á Suðureyri. Ári síðar keypti Grandi hf. togarann til úreldingar.
Sumarið 1993 hélt Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 til Chile þangað sem hún var seld og fékk nafnið Friosur VII.
Af vefsíðunni skipamyndir.com