Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að auglýsa deiliskipulag fyrir íbúðir á jörðinni Hóll á Bíldudal.
Skipulagssvæðið er alls 5,2 ha og er gert ráð fyrir allt að 60 íbúðum með blönduðum húsagerðum. Lágreist byggð rað-, par- og einbýlishúsa með aðkomu frá Bíldudalsvegi. Tillagan er í samræmi við endurskoðað aðalskipulag Vesturbyggðar 2018-2035.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til að íþróttasvæðið við Völuvöll verði innan deiliskipulagssvæðisins. Skipulagslýsingin er að öðru leyti samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að óska umsagnar og auglýsa lýsinguna.
Mikill skortur er á íbúðum á Bíldudal. Íbúum í Vesturbyggð hefur fjölgað undanfarin 5 ár og vel umfram landsmeðaltal. Ástæðan er einkum fjölgun starfa við laxeldi og stækkun Kalkþörungaverksmiðjunnar.
Gert er ráð fyrir að deiliskipulagið verði staðfest endanlega í Bæjarstjórn Vesturbyggðar í maí næstkomandi.