Á morgun 14. október hefst hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða námskeið ætlað ungu fólki, 30 ára og yngra, sem horfið hefur frá námi og/eða er án atvinnu.
Tilgangur þess er að virkja það til þátttöku í atvinnulífi eða til áframhaldandi náms, auðvelda því að takast á við verkefni sem því eru falin á vinnustað eða hjá fræðsluaðila og stuðla þannig að jákvæðu viðhorfi til vinnumarkaðar og áframhaldandi náms.
Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms.
Námsmenn vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni námsmanna og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika.
Námið skiptist í 4 námsþætti:
- Markmiðasetning og sjálfsefling
- Samskipti og samstarf
- Vinnuumhverfi og vinnustaðir
- Vettvangsnám á vinnustað
Námið samanstendur af bóklegum og verklegum þáttum þar sem tengsl við vinnustaði eru mikilvæg til að þjálfa verklag og styrkja tengsl námsmanna við atvinnulífið.