Í morgun var tilkynnt að Hafrannsóknarstofnun ráðleggði allt að 904.200 tonna loðnuveiði fyrir komandi vertíð. Það er þriðja stærsta ráðgjöf um loðnuveiði í sögunni og sú stærsta í tvo áratugi.
Samkvæmt bergmálsmælingunni haustið 2021 er hrygningarstofn loðnu metinn 1 833000 tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150000 tonnum. Samkvæmt framreikningum munu markmið aflareglu nást ef afli verður að hámarki 904 200 tonn á vertíðinni 2021/2022.
Vísitala ókynþroska loðnu (1 og 2 ára) er sú þriðja hæsta frá upphafi mælinga.
Hér er um að ræða haustráðgjöf sem er endurmetin ráðgjöf fyrir núverandi fiskveiðiár og kemur í stað upphafsráðgjafar.