Úrslit kosninganna í gær eru á margan hátt ánægjuefni. Þau eru að mínu mati sigur venjulegs fólks. Því fagna ég. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég er venjulegur maður. Venjulegt fólk nær auðvitað ekki að vera gott fólk. Það hlutverk er frátekið. Venjulegt fólk er ekki með bækur um heimsendaspár eða stjórnsýslulög á hnjánum alla daga. Er heldur ekki hrópandi á torgum vegna þeirra mála.
Það er að spá í úrlausnarefni morgundagsins. Hvernig dagurinn á morgun getur orðið betri. Hvernig lífið getur tekið framförum án kollsteypna. Það feykist ekki eins og lauf í vindi eftir svokölluðu almenningsáliti. Stendur með sínum. Horfir bjartsýnt fram á veginn og gerir hvern dag betri en þann síðasta. Venjulega fólkið er víða og það sigraði.
Næsta ríkisstjórn þarf að spegla þessa helstu niðurstöðu gærdagsins. Minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur séð betri daga. Forysta hans, þar er er ég að hluta ekki undanskilinn, er með flokksbrækurnar á hælunum. Þar verður að breyta.
Líkt og ljóst var um miðjan síðasta vetur var mikil hreyfing á kjósendum í Norðvesturkjördæmi. Mér sýnist að allt að fimmtungur kjósenda hafi fært sig til frá síðustu kosningum. Það er með ólíkindum að tölulega séð hafi fæstir þeirra séð ástæðu til þess að kjósa minn flokk. Það er umhugsunarefni.
Þegar upp var staðið hafði minn flokkur í kjördæminu tapað nær 10 % fylgis síns í síðustu kosningum. Það er líka umhugsunarefni. Að auki eigum við ekki lengur fyrsta þingmann kjördæmisins. Stjórnmálin eru slungin. Samfylkingarmenn á Skaganum ákváðu á síðustu metrunum að fórna vaxandi þingmanni kjördæmisins.
Hver er þeirra þingmaður nú?
Halldór Jónsson