Færeyingar og Íslendingar eru frændur

Grænigarður á Flateyri.

Hafin er söfnun til aðstoðar Færeyingum vegna aftakaveðurs og mikils tjóns sem varð í Færeyjum í desember. Aðstandendur fésbókarsíðunnar „Færeyingar: Við biðjumst afsökunar“ sendu ríkisstjórn Íslands bréf þann 27. desember þar sem vakin var athygli á þessum hamförum og hvatt til þess að íslenska ríkið lét fé af hendi rakna til nágranna okkar. Engin svör við þessari beiðni hafði borist tveim dögum seinna og þá var hafin landssöfnun undir yfirskriftinni Færeyingar og Íslendingar eru frændur og á fésbókarsíðu hennar má nálgast allar upplýsingar.

Í fréttatilkynningu frá hópnum kemur fram að Ásmundur Friðriksson er eini þingmaðurinn sem virt hefur hópinn viðlits en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson hvatti landsmenn í fésbókarfærslu sinni á gamlársdag til að sýna samhug í verki og leggja til í söfnunina.

Í gær höfðu safnast tæpar þrjár milljónir en söfnunin mun standa að minnsta kosti út þessa viku.

Við hér á Vestfjörðum höfum svo sannarlega notið vinaþels Færeyinga og á Flateyri og í Súðavík standa minnisvarðar þess, tákn örlætis og vinsemdar.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 1161-26-6000 og kennitalan 170961-7819

bryndis@bb.is

DEILA