Plægjum jarðveg tækifæranna

Áhersla Sjálfstæðisflokksins á athafnafrelsi og einstaklingsframtak er grundvöllur þeirrar verðmætasköpunar sem öll markmið samfélagsins um kröftugt velferðarkerfi hvíla á. Þetta er sérstaða Sjálfstæðisflokksins.

Ég horfi á íslenskt samfélag og þó vissulega séu hér óleyst verkefni þá er Ísland raunverulega land tækifæra. Við viljum plægja jarðveg tækifæranna með sterkara velferðarkerfi, betri innviðum og samkeppnishæfara umhverfi sem styður við verðmætasköpun.

Jöfnun aðstöðumunar og næstu skref

Full jöfnun dreifikostnaðar raforku, sérstakt átak í þrífösun, lagabreytingar sem stuðla að lægra raforkuverði og ljósleiðaravæðing eru dæmi um árangur okkar á kjörtímabilinu sem jafna aðstöðumun og stuðla að auknum tækifærum, ekki síst á landsbyggðinni.

Mikilvægustu stoðir okkar eru öflug mennta- og heilbrigðiskerfi sem eru aðgengileg öllum óháð efnahag. En við þurfum líka að takmarka fyrirferð ríkisins og leiðrétta þá sýn sumra að hið opinbera sé alltaf best til þess fallið að reka alla þjónustu.

Stærsta verkefni næsta kjörtímabils er aukin verðmætasköpun og aukin skilvirkni ríkisrekstrar á öllum sviðum. Nýsköpun er grundvöllur aukinnar verðmætasköpunar til framtíðar. Þess vegna höfum við haft forystu um að stórbæta jarðveg nýsköpunar með aðgerðum sem hafa fallið í góðan jarðveg og eru þegar farnar að skila áþreifanlegum árangri. Hér á landsbyggðin stór tækifæri. Þess vegna stofnuðum við Lóu, verkefnastyrki fyrir landsbyggðina til að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni – á forsendum svæðanna sjálfra.

Trúverðug nálgun á tækifæri orkuskipta

Norðvesturkjördæmi á líka risastór tækifæri í grænni orkubyltingu sem við eigum að nýta, okkur öllum til heilla. Við ætlum skipta út olíu fyrir græna orkugjafa. Flokkar sem tala fyrir loftlagsmálum en vilja ekki kannast við þörf fyrir frekari auðlindanýtingu eru einfaldlega ekki trúverðugir. Ný atvinnugrein getur orðið til í kringum framleiðslu á vistvænu eldsneyti framtíðarinnar. En það skiptir máli þegar talað er nauðsyn þess að minnka losun og hætta olíunotkun, að því sé þá svarað hvaða orka á að koma í staðinn.

Sumir flokkar tala opinskátt um að lausnin sé að loka stóriðju, sem myndi þýða að stærstu vinnustöðum kjördæmisins yrði lokað. Sjálfstæðisflokkurinn telur það fráleita stefnu. Þvert á móti eru spennandi uppbyggingartækifæri á Grundartanga og víðar í bæði eldsneytisframleiðslu og nýtingu á hita frá stóriðju sem gæti nýst til húshitunar; þetta eru tækifæri sem við styðjum heilshugar og við viljum greiða götu þeirra.

Aukið frelsi til búsetu

Við sáum störf án staðsetningar verða að veruleika í Covid. Þar liggja mikil tækifæri fyrir Norðvesturkjördæmi, ekki bara í opinberum störfum sem hægt væri að flytja heldur líka í einkageiranum. Haraldur Benediktsson gerði gríðarlega vel í ljósleiðaraátakinu og því erum við nú að horfa á raunverulegt frelsi til búsetu aukast mjög.

Af sama meiði er nauðsyn þess að stórbæta samgöngur í kjördæminu. Þótt verið sé að stíga góð skref gengur verkefnið of hægt, það finna allir sem ferðast akandi um kjördæmið. Við þurfum að leita fleiri leiða til að byggja hraðar upp samgöngur í landinu, því samgöngumál eru atvinnumál, byggðamál og líka heilbrigðismál. Öflugt samgöngukerfi er lífæð samfélagsins og forsenda þess að búa til verðmæti, færa heilbrigðisþjónustu nær fólki og tryggja öryggi fólks. Við þurfum að gera það sama í því hvernig við nálgumst heilbrigðis- og öldrunarmál í dreifðari byggðum og samspil sveitarfélaga við ríkisvaldið.

Ábyrg efnahagsstjórn er lykilforsenda

Öll háleit markmið okkar um enn betra samfélag hvíla á þeirri grundvallarforsendu að jarðvegur verðmætasköpunar verði ekki eyðilagður, heldur verði haldið áfram að hlúa að honum. Það gerum við með ábyrgri efnahagsstjórn, stöðugleika, samkeppnishæfu starfsumhverfi og stuðningi við þau fjölmörgu tækifæri til uppbyggingar sem blasa við okkur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins

DEILA