Almennt mikil ánægja með hvernig til tókst

Allar samkomur sem voru í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir nýliðna páska; rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, skíðavikuviðburðir, dansleikir eða aðrir viðburðir gengu vel fyrir sig og að sögn Hlyns Hafberg Snorrasonar yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vestfjörðum. Eitt og annað höfðu laganna verðir þó að gera og voru til að mynda 93 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, flestir í Ísafjarðardjúpi og Strandasýslu. Sá sem hraðast ók var mældur á 189 km hraða í Skötufirði um miðjan dag þann 13. apríl.  Slíkt brot varðar við ökuréttindasviptingu ásamt allhárri sekt. Einn ökumaður var kærður fyrir lagningarbrot í miðbæ Ísafjarðar og annar stöðvaður með útrunnin ökuréttindi.

Mikil umferð var um Vestfirði síðustu daga. Lögreglan var með aukinn viðbúnað bæði hvað umferðareftirlit og fíkniefnaeftirlit varðar. Fíkniefnahundurinn Tindur vann sem fyrr með lögreglumönnum. Segir Hlynur allt hafa gengið vel fyrir sig og allir komið heilir heim. Í liðinni viku var þó aðstoð björgunarsveita óskað í nokkur skipti er ökumenn festu bíla sína á fjallvegum. Aðeins var tilkynnt um eitt umferðaróhapp er flutningabifreið og snjóruðningstæki rákust saman á Steingrímsfjarðarheiði í gær. Engin slys urðu á fólki en flutningabíllinn er óökufær eftir atvikið.

Um klukkan fjögur aðfaranótt páskadags var tilkynnt um líkamsárás í miðbæ Ísafjarðar. Einn maður hlaut áverka en þó ekki alvarlega. Tveir menn eru grunaðir um árásina og voru þeir handteknir og færðir í fangaklefa. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni.

annska@bb.is

DEILA