Óskað eftir sjálfboðaliðum í hraðíslensku miðvikudaginn 1. september á Dokkunni
Við hjá Háskólasetri Vestfjarða höfum reynt að brydda upp á nýjungum núna í sumar hvað íslenskunámskeið okkar áhrærir. Vel hugsanlega hafið þið rekið augun í átakið íslenskuvænn staður og vel kann að vera að þið hafið lent í spjalli við nemendur okkar vegna verkefna sem þeir hafa þurft að sinna og lúta að því að brúka málið.
Í sem skemmstu máli snýst málið aukinheldur um að vekja athygli á þeirri einföldu staðreynd að mál verða ekki lærð öðruvísi en með því að nota þau. Þar að auki höfum við vissulega á bak við eyrað að átakið megi vera hvatning til allra til að gera íslenskunni hærra undir höfði en oft er raunin.
Í þessu samhengi var svo staðið fyrir smávægilegri tilraun 18. ágúst síðastliðinn. Þá átti sér stað, með nemendum þriggja vikna námskeiðs okkar, og það ef til vill í fyrsta sinn yfirhöfuð, eitthvað sem fengið hefir nafngiftina hrað-íslenska.
Hrað-íslenska lýtur sömu lögmálum og speed-dating, íslenskumælandi aðilar sitja við borð og fá „heimsókn“ nemenda á 4-5 mínútna fresti til að spjalla við; bjöllu er hringt (eða kallað) og þá kemur nýr nemi til að spjalla við. Þetta er afar einfalt í alla staði. Hið eina sem þarf að gera er að spjalla um daginn og veginn og kannski um það sem nemendur hafa haft fyrir stafni undanfarnar vikur og þá einkum og sér í lagi hér á Vestfjörðum.
Hrað-íslenskan var haldin á Dokkunni sem verið hefir haukur í horni þegar kemur að verkefnum okkar. Hefir og verkefnunum verið vel tekið af flestum. Horfir enda vel hugsanlega til betri vegar þegar kemur að viðhorfi gagnvart íslenskunni og almennri notkun hennar, í hvaða formi sem það kann að vera. Við erum ekki frá því að þjónkunin gagnvart enskunni sé á undanhaldi, ellegar að ákveðin meðvitund sé að skapast, allavega hér á Vestfjörðum.
Hvað um það. Nú bregður svo við að áætlað er að endurtaka leikinn en nú með nemendum framhaldsnámskeiðs okkar. Þar af leiðandi viljum við beiðast þess af ykkur að taka þátt sé ykkur það fært. Ástæða skrifanna er sum sé að athuga hvort einhver væri tilleiðanlegur eða tilleiðanleg (eða þá legt) til að veita okkur smá liðsinni í formi tíma; að mæta á Dokkuna á miðvikudaginn 1. september klukkan 20:00 og taka þátt í þessu. Því miður höfum við ekki tök á að verðlauna fólk nema þá með þakklæti en hver veit nema þetta uppátæki komi til með að vinda upp á sig í framtíðinni.
Hafið þið hug á að vera með í einhverju sem ef til vill mætti kalla samfélagsverkefni, hafið þá endilega samband og sendið okkur línu á islenska(hjá)uw.is.
Með fyrirfram bestu þökkum,
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson
verkefnastjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða