Kees Visser með sýningu á Ísafirði

Laugardaginn 28. ágúst kl. 16 verður opnun sýning á verkum Kees Visser í Úthverfu á Ísafirði.

Sýningin ber heitið ,,ÖNNUR SÝNING‘‘ en Kees Visser hélt síðast einkasýningu í þessu sama rými árið 1990 sem Myndlistarfélagið á Ísafirði rak og hét þá Slunkaríki.

Á sýningunni verða tíu nýleg verk, blýantsteikning með bleki og vatnslitum og akrýlmálverk unnin á 105 gr. Shiragiku pappír
og Mengeї. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar og boðið verður uppá sýningarspjall af því tilefni.

Kees Visser (fæddur 1948) yfirgaf heimaland sitt Holland á áttunda áratugnum og settist að á Íslandi þar sem hann heldur áfram að verja hluta af tíma sínum en er einnig búsettur í Hollandi og Frakklandi. Á Íslandi varð hann þátttakandi í myndlistarsenunni þar sem framsæknar liststefnur á borð við fluxus, naumhyggju og hugmyndalist (conceptual art) réðu ríkjum.
Í verkum sínum hefur Kees, sem er sjálfmenntaður í listinni, lengi sameinað þessi áhrif og lagt áherslu á abstrakt og raðframsetningu. Hann vinnur mest með litakenningar, rýmisform og framsetningu.

Hinar fjölmörgu höggmyndir hans fást við litaseríur í bland við ýmis form og efni, oft með tilvísunum í hagnýta og venjulega hluti sem allir þekkja. Verk hans á pappír eru hins vegar oftast eingöngu abstrakt, einlita fletir með yfirmálningu til að ná djúpum en fíngerðum litaáhrifum með kristallaðri áferð. Á sýningum virkjar Kees sýningarrýmið með því að nota form verkanna til að endurhugsa rýmið og færa málverkið í átt að hugmyndafræðilegri naumhyggju.

Verk Kees Visser hafa verið sýnd víða um heim auk þess að vera í fjölmörgum alþjóðlegum einkasöfnum og opinberum söfnum, svo sem Stedelijk Museum í Amsterdam, Listasafni Íslands, Listassafni ASÍ, MOMA í New York, Victoria & Albert safninu í London og Bibliothèque Kandinsky í Centre Pompidou í París. Árið 2018 hlaut Kees Visser Vishal Art Award og opnaði yfirlitssýningu í Vishal í Haarelm (NL) í desember 2018 af því tilefni.

Sýningin er opin fimmtudaga – föstudaga kl. 16 – 18

DEILA