Flokkur fólksins: styður laxeldi í vestfirskum fjörðum

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Eyjólfs Ármannssonar, oddvita Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

Flokkur fólksins hefur ekki verið andvígur Hvalárvirkjun eða á móti þeim virkjunarkostum sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun.

Flokkur fólksins hefur ekki kynnt sér sérstaklega Vatnsfjarðarvirkjun sem virkjunarkost en sé hún í nýtingarflokki í Rammaáætlun og umhverfismat fari fram lögum samkvæmt gerir flokkurinn að þessu gefnu ekki athugasemd við framkvæmdina.

Inga Sæland, formaður flokksins, hefur flutt þingmál um umhverfismat á smærri virkjunum.

Sjá linka:

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Flokkur fólksins styður heilshugar bættar samgöngur á Vestfjörðum og veg um Teigskóg og þær vegabætur sem því fylgja. Um mjög mikilvæga framkvæmd er að ræða.

Sá er þetta skrifar kynntist Teigskógsmálinu er hann var lögfræðingur Skipulagsstofunnar árunum 2005-6 ef hann man rétt ártölin. Þverun og brú á milli Skálaness og Reykhólasveitar hefði einnig verið mjög góður kostur en hún var ekki farin og sú vegagerð sem nú er hafin er fyrir löngu orðin tímabær og mikilvægt að henni ljúki sem fyrst og án frekari tafa.

Bættar samgöngur er eitt að helstu baráttumálum oddavita Flokks fólksins í NV-kjördæmi. Ég hef þegar sent grein til Bændablaðsins um samgöngumál í NV-kjördæmi sem bíður birtingar.

 

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Flokkur fólksins styður laxeldi vestfirskum fjörðum og telur að sú atvinnugrein hafi verið mikilvæg lyftistöng fyrir Vestfirði um muni verða það enn frekar í framtíðinni. Flokkurinn styður frekar uppbyggingu greinarinnar á Vestfjörðum. Mikilvægt er einnig að styrkja regluverk og eftirlit með greininni og huga vel að lögum um umhverfismat og ítrustu varúðar verði gætt til að koma í veg fyrir að eldisfiskur blandist náttúrulegum fiskistofnum sem ganga í ár á Vestfjörðum. Þetta er enn ung grein á Íslandi sem á eftir að slíta barnskónum. Mikilvægt er að á Vestfjörðum verði byggð upp sem víðtækust þekking á sviði fiskeldis. Einungis þannig getur atvinnugreinin dafnað.

DEILA