Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.
Hér koma svör oddvita Pírata, Magnúsar Norðdahl.
Formáli:
Píratar aðhyllast valddreifingu og aukinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Íbúar nærsamfélags eiga að hafa úrslitaorðið varðandi ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf þeirra. Svör Pírata við spurningum BB taka mið af þessari grunnforsendu.
Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.
Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?
Svar:
Píratar eru hlynntir frekari virkjanaáformum á Vestfjörðum. Orka sem framleidd er innan svæðis eykur afhendingaröryggi raforku sem er forsenda frekari atvinnubyggingar og þar með búsetu á svæðinu. Samhliða verður einnig að bæta dreifikerfið.
Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.
Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?
Svar:
Píratar styðja þetta mál. Tími til kominn að ljúka þessu verkefni sem hefur fengið mikla umræðu og skoðun á síðustu árum.
Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.
Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?
Svar:
Íbúar á þeim svæðum, þar sem laxeldi hefur rutt sér til rúms, líta flestir jákvæðum augum á laxeldið og eru hlynntir frekari uppbyggingu.
Pírötum, sem og öðrum stjórnmálamönnum, ber að virða þennan vilja íbúa á umræddum svæðum. Píratar setja hins vegar skýr skilyrði fyrir því að framleiðslunni sé háttað þannig að umhverfisáhrif verði sem allra minnst. Þá verði að hafa öflugt eftirlit sem framkvæmt er af sjálfstæðum og ótengdum aðilum.
Enn fremur verði að tryggja að stærstur hluti af þeirri verðamætasköpun sem greinin skapar verði eftir á þeim svæðum sem fiskeldið er stundað. Enginn veit hversu lengi laxeldi í sjó verður við lýði og reyndar líklegt að það muni í ríkum mæli færast upp á land á næstu árum og áratugum. Á þeim tímapunkti væri bagalegt ef umrædd svæði sætu eftir með sárt ennið án þess að hafa notið fjárhagslegs ávinnings af greininni meðan hún var í blóma.
Að lokum verður skilyrðislaust að tryggja að smærri innlend fyrirtæki með sterkar rætur á Vestfjörðum standi jafnfætis erlendum stórfyrirtækjum.