Fram kom á íbúafundi í Árneshreppi í síðustu viku að deilum um Hvalárvirkjun hefði fylgt erfiðar tilfinningar s.s. sorg, reiði, depurð, sem fólk upplifði í kjölfar deilna um Hvalárvirkjun og að það hefði legið í þagnargildi. Nokkrir tjáðu sig um þessi mál á svipuðum nótum, lýstu þessu sem erfiðri upplifun segir í frásögn verkefnastjóra verkefnisins Áfram Árneshreppur af fundinum. Þá segir að almenn ánægja hafi verið á fundinum um að umræða hefði skapast um þessi mál, sem óneitanlega hafa litað mannlífið í Árneshreppi undanfarin ár. „Það var eindregin ósk fundargesta að íbúar sameinist um að vinna úr þessum erfiða samskiptavanda og að sættir náist.“
35 m.kr. í verkefnastyrki
Skúli Gautason verkefnisstjóri kynnti samantekt á verkefnastyrkjum frá upphafi verkefnisins og bauð jafnframt viðstöddum forsvarsmönnum verkefna að kynna stöðu þeirra á fundinum. Einnig kynnti hann aðra styrki sem hafa verið veittir til verkefna í Árneshreppi m.a. úr Öndvegissjóði.
Samtölur styrkveitinga á árunum 2018-2021 eru þessar: Til iðnaðarverkefna: 3,03 m.kr., til menningarmála 9,05 m.kr., til heilsueflandi verkefna 7,48 m.kr., til ferðaþjónustuverkefna 8,81 m.kr., til samfélagsverkefna 4,93 m.kr. og til orkuverkefna 0,8 m.kr.
Ómar Bjarki Smárason kynnti stöðu á hitaveituverkefninu, undirbúningur á rennslisprófun er í undirbúningi. Kannað verður hvort mögulegt sé að hafa sjálfrennandi vatn sem er hentugast en annars yrði að setja dælu á holuna. Prófun verður framkvæmd eftir miðjan september. Eins hefur verið hugað að næstu skrefum varðandi undirbúning hitaveitu.
Baskaverkefnið. Til stendur að stofna sjálfseignarstofnun „Baskasetur Íslands“ á grundvelli greiningar og kynningar á meðal fjölda aðila, innanlands sem og erlendis. Mikill áhugi er fyrir þessari sögu og telur forsvarsmaður verkefnisins, Héðinn Ásbjörnsson, grundvöll fyrir öflugri stofnun.
Fræðasetur í Finnbogastaðaskóla. Ómar Bjarki kynnti uppbyggingu fræðaseturs í Finnbogastaðaskóla. Ný hugmynd hefur kviknað varðandi innviða uppbyggingu sem snýr að því að ráða tvo starfsmenn með þekkingu á húsasmíði og kennslu. Hér myndi því skapast tækifæri til samnýtingar s.s. endurbætur húsa, nýbyggingar og umsjón með fræðasetrinu. Ómar Bjarki hefur einnig áhuga á að laða að arkitekta að verkefninu og ræddi jafnframt hugmyndir að endurbótum síldarverksmiðjunnar í Ingólfsfirði.
Djúpavíkurhús. Grétar Örn Jóhannsson kynnti stöðu verkefnisins. Unnið er að endurbótum á húsnæði í Djúpavík en vilji til að nota aðstöðu í Djúpavík til að byggja smáhýsi og skapa þar með atvinnutækifæri ef vel gengur. Stefnt er að því að frumgerð svokallaðs Djúpavíkurhúss verði tilbúin næsta vor og jafnframt fari af stað markaðssetning á húsunum.