Guðmundur Óskarsson nýr markaðs- og vörustjóri Kerecis

Kerecis hefur ráðið Guðmund Óskarsson sem framkvæmdastjóra markaðs- og vörustjórnunar. Helstu verkefni Guðmundar verða að leiða markaðsmál Kerecis á alþjóðavettvangi auk vörustjórnunar og innleiðinga á nýjum vörum.

„Vöruframboð Kerecis hefur undanfarin ár verið fremur einfalt. Framundan er hinsvegar markaðssetning á nýjum vörum sem allar byggja á roðtækni okkar og er ég viss um að forystuhæfileikar, sérþekking og reynsla Guðmundar eigi eftir að reynast okkur vel í því ferli“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis. „Guðmundur býr að mikilvægri alþjóðlegri reynslu og reynslu í aðgreiningu vara á samkeppnismörkuðum og erum við spennt að fá hann í okkar fjölþjóðlega teymi“.

Guðmundur hefur starfað undanfarin tvö ár sem forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá VÍS og lengst af sem forstöðumaður og framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Icelandair.

„Ég er mjög spenntur að ganga til liðs við Kerecis – bæði faglega og persónulega,“ segir Guðmundur. „Kerecis er fullkomið dæmi um íslenskt fyrirtæki sem er í fararbroddi í nýsköpun og á sama tíma umhverfislega sjálfbært. Kerecis nýtist þúsundum sjúklinga um allan heim á hverjum degi – án þess að skaða umhverfið.“

Guðmundur er með BS-gráðu í viðskiptafræði og BA-gráðu alþjóðasamskiptum frá Pennsylvania State University ásamt diplómu frá University of Leipzig í Þýskalandi.

Kerecis er brautryðjandi í framleiðslu á lækningavörum úr þorskroði og fitusýrum sem verja líkamsvefi og græða. Vörur fyrirtækisins eru framleiddar á Ísafirði, vöruþróun fer fram í Reykjavík og sölu- og markaðsstarf á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum og í Sviss.

DEILA