Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þann 12. ágúst samþykkti sveitarstjórn samþykkti að sækja um styrk til Fiskeldissjóðs vegna hafnarframkvæmda.
Fjármagn renni beint til viðkomandi sveitarfélags
Jafnframt gerði sveitarstjórn eftirfarandi bókun í málinu.
„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps er vonsvikin að þurfa að sækja um framlag úr sjóði sem er fjármagnaður með opinberum gjöldum greiddum af starfsemi er fer fram við strendur sveitarfélagsins. Sjóðurinn úthlutar til verkefna sem snúa að styrkari samfélagsgerð; uppbyggingu innviða; vinnu að loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd t.d. í fráveitum; vegna uppbyggingar aðstöðu í landi og til nýsköpunar. Öll þessi atriði eru verkefni sem sveitarfélög sinna nú þegar og því væri rétt að opinbert fjármagn sem verður til vegna starfsemi fiskeldisfyrirtækja renni beint til viðkomandi sveitarfélaga. Þetta nýja fyrirkomulag skapar óþarfa spennu milli sveitarfélaga, kallar á aukna vinnu og kostnað og getur verið þungur baggi fyrir lítil sveitarfélög. Það hlýtur að vera hægt að treysta sveitarfélögunum til að fara með það opinbera fé sem er ætlað til uppbyggingar fiskeldissamfélaga í stað þess að þau séu neydd í betliferðir til Reykjavíkur eftir fjármagni. Það getur ekki talist hagkvæmasta leiðin til að fara með opinbert fé.“