Þorgeir Pálsson fyrrverandi sveitarstjóri Strandabyggðar óskaði eftir svörum um þjónustukaup, útboð og styrki síðustu 20 árin hjá sveitarfélaginu. Sérstaklega spurði hann um viðskipti við Trésmiðjuna Höfða og styrkveitinga til Sauðfjárseturs á Ströndum og til Galdrasafnsins.
Í svörum sveitarfélagsins kemur fram að þjónustukaupin af Trésmiðjunni Höfða hafi verið 175 m.kr. síðustu 20 árin. Galdrasafnið hefur fengið 53,4 m.kr. og Sauðfjársetrið 7,6 mkr. á sama árabili.
Um framlög til Galdrasafnsins segir í svörunum:
„Upphæðin byggist að langmestu leyti á styrktar- og þjónustusamningi vegna reksturs Upplýsingamiðstöðvar ferðamála fyrir Strandabyggð, frá árinu 2008 til 2020. Áður rak sveitarfélagið sjálft Upplýsingamiðstöðina í áratug í anddyri félagsheimilisins. Samningurinn var ekki framlengdur í lok árs 2020, en þá var samþykktur rekstrarstyrkur til stofnunarinnar 2 millj. á ári til þriggja ára frá og með 2021. Framlög sveitarfélagsins til Strandagaldurs ses utan þessa samnings á tímabilinu eru samtals 315 þúsund.“
Varðandi Sauðfjársetrið kemur þetta fram í svörunum:
„Sauðfjársetur á Ströndum ses hefur samkvæmt styrktarsamningum fengið 850 þús á ári í rekstrarstuðning frá sveitarfélaginu frá árinu 2015 og áður 600 þús á ári fjórum sinnum. Þess utan framlög að upphæð 162.500.- Til viðbótar afsalaði Strandabyggð sér þriðjungshlut í félagsheimilinu Sævangi, sem kom frá Ungmennafélaginu Hvöt þegar það var lagt niður, til Sauðfjárseturs á Ströndum ses á árinu 2020. Áður hafði sveitarfélagið afsalað sér 2/3 hlutum hússins árið 2007 til Félags áhugamanna um Sauðfjársetur, þeim hlutum sem áður tilheyrðu Kirkjubólshreppi, Kvenfélaginu Björk og Lestrarfélagi Tungusveitar.“
Aðspurður kvaðst Þorgeir Pálsson fyrst og fremst hafa viljað fá fram umfang þessara greiðslna Strandabyggðar til fyrirtækis og stofnana sem tengjast beint kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann sagði að svörin væru ekki tæmandi og að hann myndi fylgja þeim eftir.