FLATBIRDS: Tólf ný málverk og áhugaverð afþreying á Flateyri

Jean Larson. Myndir: aðsendar.

Síðustu vikur hefur listakonan Jean Larson töfrað fram tólf sérlega frumleg málverk/vegglistaverk á húsveggjum bygginga víðsvegar um Flateyri. Vegglistaverkin verða formlega kynnt almenningi 14. ágúst n.k. kl. 14.00. Athöfnin fer fram í Gunnu kaffi á Flateyri og á göngu um þorpið. Óvænt listauppboð fer einnig fram á sama tíma.

Tólf ný vegglistaverk

Markmið verkefnisins, sem ber yfirskriftina FLATBIRDS, er að koma á fót einstakri göngu um Flateyri fyrir fjölskyldur, börn og aðra gesti og skapa sérstaka og frumlega upplifun til að læra um fuglalíf Önundarfjarðar í gegnum áhugaverða og fallega list.

Vegglistaverkin tákna fuglategundir sem finnast í Önundarfirði. Þau hafa verið máluð með leyfi frá eigendum húseignanna. Gestir geta notið þess að leita að og skoða vegglistaverkin á göngu um hið einstaka umhverfi þorpsins á Flateyri. Sum verkanna eru, eins og fuglarnir sjálfir, á óvæntum og nokkuð földum stöðum og því þurfa áhugasamir að leggja sig nokkuð fram við leitina.

Jean Larson, íbúi á Flateyri og þekkt listakona frá Michigan í Bandaríkjunum, hefur í samstarfi við Juraj Hubinák, annan íbúa á Flateyri og verkefnastjóra Lýðskólans á Flateyri, unnið að verkefninu við að gera það að veruleika og tryggja nauðsynlegt fjármagn til þess. Verkfræði- og þekkingarfyrirtækið EFLA veitti styrk fyrir stórum hluta verkefnisins, en Jean gaf alla sína vinnu við verkefnið.

Fyrsta fuglagangan og listaverkauppboð

Í tilefni af því að verkefninu er nú lokið og tólf listaverk prýða nú hina ýmsu húsveggi á Flateyri, vilja listakonan og verkefnisstjórinn bjóða gestum í gönguferð um þorpið. Gangan mun hefjast við Gunnu kaffi á Flateyri laugardaginn 14. ágúst klukkan 14:00. Á meðan á göngunni stendur gefst gestum tækifæri til að læra áhugaverða hluti um fuglana frá fuglafræðingi sem mun slást með í för. Listakonan Jean Larson mun útskýra listræna nálgun sína og tala um tengsl sín við náttúruna í gegnum verk sín. Göngunni lýkur svo í Gunnu kaffi á Flateyri, þar sem boðið verður upp á léttar veitingar.

Listakonan hefur einnig ákveðið að bjóða upp 13. fuglamyndina og geta eigendur húseigna á Flateyri eða aðrir velunnarar Flateyrar boðið í listaverkið, á sinn eigin vegg, eða vegg grunnskólans á Flateyri. (nánari útfærsla í samvinnu við Jean)

Allur ágóði frá uppboðinu verður gefinn til Fuglaverndar – Fuglaverndarfélags Íslands.

Nýtt aðdráttarafl fyrir Flateyri

Á meðan þessi listaverk voru sköpuð lýstu íbúar jafnt sem gestir yfir miklum áhuga og stuðningi við verkefnið og margir hafa þegar notað tíma sinn á Flateyri við að leita að öllum myndunum. Þannig hefur þetta verkefni mikla möguleika á að þróast enn meira í framtíðinni og verða Flateyri og ferðaþjónustu í þorpinu til mikils framdráttar.

Það er einlæg von listakonunnar að gestir sem koma og njóta listaverkanna deili upplifun sinni á samfélagsmiðlum og úr verði verkefni sem getur þannig skapað umtal og almennan áhuga. Gestir eru hvattir til að deila myndum sinni og reynslu með því að nota myllumerkið #flatbirds.

Fyrir frekari upplýsingar um verkefnið og þessa sérstæðu listagöngu um Flateyri er fólk hvatt til að fylgja verkefninu á Facebook https://fb.me/e/PWXlFjwZ.

Upplýsingar og myndir af listaverkefnum listakonunnar Jean Larson má finna á Instagram @jeanlarsonartist og vefsíðu www.jeanlarson.com.

DEILA