Flateyrarvegur um Hvilftarströnd: Vegagerðin með tillögur um úrbætur fyrir 450 m.kr.

Vegagerðin hefur unnið tillögur um aðgerðir til að auka umferðaröryggi á Flateyrarvegi yfir vetrartímann. Ákveðið hefur verið að tillögurnar verði teknar til umfjöllunar og forgangsröðunar við gerð tillögu að nýrri samgönguáætlun sem nú er í undirbúningi.

Þetta kemur fram á Alþingi í svörum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, alþm. um ofanflóðavarnir við vegi í Önundarfirði og Súgandafirði.

Ekki er um framtíðarlausn að ræða samkvæmt svörunum, en Vegagerðin telur að færa þurfi veginn til að gera hann öruggan fyrir ofanflóðum.

Tillögur Vegagerðarinnar eru þrjár:

Í fyrsta lagi að setja upp radar í Skollahvilft. Radarinn á að nema þegar að snjóflóð fer af stað í Hvilftinni. Við það munu kvikna aðvörunarljós sem jafnframt loka vegakaflanum.  Lagt er til að skoðað verði að koma fyrir sams konar radar sem yrði notaður til að vakta Flateyrarveg við Selabólsurð. Jafnframt verði komið upp lokunarljósum sitthvoru megin við urðina. Hægt væri að koma fyrir lokunarljósum við þrjá farvegi snjóflóða á þeim kafla. Í fyrsta lagi við Selabólsurðina sjálfa, í öðru lagi á Traðarnesi og í þriðja lagi undir Bæjargili.
Áætlaður heildarkostnaður við þessar ráðstafanir, þ.e. við ljós og tengingar, er metinn 150 millj. kr.

Í öðru lagi verði í að stækka skeringu ofan vegar við Selabólsurð á því svæði þar sem flest snjóflóð falla út á veg. Allt efni sem kæmi úr skeringunni yrði notað til að lagfæra öryggissvæði vegarins. Flateyrarvegur er mjög þröngur á köflum auk þess sem á honum eru víða brattir fláar. Hægt væri að ráðast í þessar framkvæmdir óháð öðrum aðgerðum og myndu þær bæta umferðaröryggi á veginum.
Áætlaður kostnaður við skeringar og lagfæringu fláa er metinn 120 millj. kr.

Loks í þriðja lagi yrði athugað að setja upp stálþil á valda staði á leiðinni til að koma í veg fyrir að minni snjóflóð fari yfir veginn. Reynslan af þeim framkvæmdum yrði síðan nýtt í samráði við Veðurstofuna til þess að taka ákvarðanir um skilgreiningar á hættustigi á veginum og lokanir í framhaldi af því.
Áætlaður kostnaður við að setja upp stálþil á 400 metra kafla er metinn 180 millj. kr.


Áætlaður heildarkostnaður við ofangreindar framkvæmdir á Flateyrarvegi yrði þá 450 millj. kr. segir í svari ráðherrans.

Óvíst um tillögur í Súgandafirði

Einnig var spurt um áform um að verja vegi í Súgandafirði fyrir ofanflóðum, m.a. í ljósi ofanflóðahættu við botn Súgandafjarðar að gangamunna og um Spillisveg er þekktur fyrir snjóflóð og aurskriður sem ógna þeim sem þar eiga leið um dag hvern vegna vinnu og skólagöngu eins og segir í fyrirspurninni.


Í svari ráðherrans segir að ekki séu fyrirhugaðar breytingar við gangamunna Súgandafjarðarmegin en mögulegar aðgerðir um Spilliveg séu í athugun. Ekki er fyrirhugað að fara í ofanflóðavarnir á þeirri leið og til þess að verja veginn fyrir ofanflóðum yrði að færa hann. Vegagerðin er að vinna frumdrög að slíkri framkvæmd sem ljóst er að yrði viðamikil og kostnaðarsöm.

DEILA