Eins og kunnugt er ákvað Hafrannsóknarstofnun að vega að væntanlegu laxeldi í Ísafjarðadjúpinu með því að loka öllu svæðinu innan línu sem liggur um Ögurnes að Æðey og Hólmasundi. Það var gert til þess að draga úr líkum á því að eldislax slyppi úr kvíunum og gengi upp í árnar Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá. Ósar Laugardalsá eru í um 7 km fjarlægð frá þessari takmörkunarlínu en sameiginlegur ós hinna ánna tveggja er miklu lengra frá eða um 25 km. Í reglugerð um fiskeldi er almennt ákvæði sem mælir fyrir um a.m.k. 5 km fjarlægð.
Þar segir í 18. grein rgl 540/2020:
„Matvælastofnun skal tryggja að fjarlægðarmörk frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu séu eigi styttri en 5 km þegar um laxfiska er að ræða í eldi. Miðast framangreind fjarlægðarmörk við loftlínu, nema þegar tangar skilja á milli.„
Þetta ákvæði er enn í fullu gildi og Matvælastofnun er bundin af því þegar stofnunin gefur í rekstrarleyfi til fiskeldis í sjókvíum. Hafrannsóknarstofnun hefur hins vegar með Ögurnes, Æðey og Hólmasundslínunni sett fram skilyrði sem þýðir 25 km fjarlægð og leyfið sem Mast hefur gefið Háafelli fyrir laxeldi í Djúpinu er fyrir 2 svæði sem eru utan Ögurneslínunnar og þar má vera með frjóan lax og eitt svæði innan línunnar, þar sem aðeins er heimilt að vera með ófrjóan lax. Hér vakna spurningar um lagagrundvöll fyrir nýju fjarlægðarmörkunum hjá Hafrannsóknarstofnun sem svör liggja ekki á lausu við.
18.000 tonna skerðing
Afleiðingin af ákvörðun Hafrannsóknarstofnun er að það magn sem rækta má í Ísafjarðardjúpi af frjóum laxi lækkar úr 30.000 tonnum niður í 12.000 tonn. Skerðingin eru 18.000 tonn af laxi á hverju ári. Útflutningsverðmætið er um 18 milljarðar króna. Það er fórnarkostnaðurinn af því að vernda laxinn sem gengur í árnar þrjár í Djúpinu.
Hlutverk Hafrannsóknarstofnunar er að efla vísindalega þekkingu og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna. Segja má að skilyrðin í hafinu til að rækta lax séu auðlind og því er hlutverk vísindastofnunarinnar að gefa stjórnvöldum ráð sem skila arðbærri nýtingu þessara skilyrða.
Ákvörðun stofnunarinnar um skerðingu á nýtingu Djúpsins til laxeldis með Ögurness-Æðey-Hólmasund línunni er ákvörðun um að skerða arðbæra nýtingu um 60%. Því verður að gera kröfu til Hafrannsóknarstofnunar að gerð verði grein fyrir því hvernig komist er að þessari niðurstöðu, þ.e. hver er ávinningurinn á móti þessari fórn sem réttlætir hana.
Við það mat þarf að fylgja ákvæði laga um fiskeldi sem segja að tilgangurinn með fiskeldi sé að efla atvinnulíf og byggð í landinu og tryggja verndun villtra nytjastofna. Með öðrum orðum það á ekki bara að horfa til mögulegra áhrifa á villta laxinn heldur líka að eldið eflir atvinnulíf og byggð. Þetta tvennt þarf Hafrannsóknarstofnun að vega saman, en virðist ekki gera.
Óljóst verðmæti laxastofnanna
Ávinninginn af eldinu er tiltölulega auðvelt að meta bæði á efnahag þjóðarinnar og byggðina og góð gögn um það liggja fyrir. Hitt er öllu óljósara hvernig á að leggja mat á verðmæti laxastofnanna í ánum þremur. Hafrannsóknarstofnunin gerir enga tilraun til þess og gengur einfaldlega út frá því að verðmæti stofnanna sé alltaf meira en efnahagslegur ávinningurinn. Þarna bregst stofnunin illilega því hún er sú vísindastofnun landsmanna sem getur helst gert þetta. Það á hún að gera með því að skoða laxinn sem gengur í þessar þrjár ár og athuga hvort um sé að ræða sérstaka stofna sem hafi eitthvert ótvírætt verndargildi. Síðan þarf að meta það gildi og loks að vega saman mögulegan skaða sem stofnarnir geta orðið fyrir og efnahagslegt og byggðarlegt gildi nýtingarinnar.
Um Laugardalsá segir á vefnum veidistadir.is:
„Þessi á var fyrrum fisklaus en með tilkomu manngerðs fiskvegs í kringum árið 1969 hefur áin orðið gríðarlega góð laxveiðiá.“
Það er því augljóst að í Laugardalsá er enginn forn laxastofn heldur aðeins fiskur sem kemur annars staðar frá og er væntanlega til þar. Þá var sleppt í ána 8.500 seiðum frá Kollafjarðarstöðinni bæði sumaralin og gönguseiði.
Um Langadalsá segir í blaðinu Vesturlandi, árið 1965:
„Langadalsá er mjög fögur og tilkomumikil á og veiðistaðir margir. Hún getur vart talizt mikil laxá, en þó fer veiði þar vaxandi með ári hverju, því að Stangaveiðifélagið hefur á mörgum undanförnum árum stundað fiskirækt í ánni og sleppt þar tugþúsundum laxaseiða.“
Samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar frá 1989 var sleppt í Langadalsá og Hvannadalsá um 40.000 seiðum á árunum 1965 – 1981. Þar af voru 14.000 sumaralin seiði og 26.000 gönguseiði. Seiðin komu úr Kollafjarðarstöðinni og voru klakin út úr blöndu af hrognum frá ýmsum laxveiðiám á landinu.
Fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Veiðimálastofnunar lét hafa eftir sér að ekki væri sjáanlegt að þessar sleppingar hefðu haft áhrif á upprunalegu stofnana í ánum. Sé það rétt, sem reyndar væri fróðlegt að fá rökstutt með mælingum og greiningum á erfðamengi stofnanna, þá verður erfitt að halda því fram að sömu stofnar séu í bráðri hættu ef svo illa tekst til að fáeinir laxar sleppi úr kvíum í Djúpinu. Því til viðbótar þá er kominn búnaður sem gerir það að verkum að allir laxar sem ganga upp í árnar eru vaktaðir og unnt að fjarlægja hvern þann lax sem ekki er velkominn upp í árnar.
Af öllu þessu er augljóst að Hafrannsóknarstofnun verður að fylgja lagafyrirmælum og gera eitthvert burðugt verðmætamat á villtu stofnunum sem hægt er að styðjast við þegar metin eru samanlagt áhrifin af fiskeldinu.
76 m.kr. fórnað fyrir hvern veiddan lax
Það má hæglega bera saman stangveiðina og framleiðsluverðmætin af laxeldinu. Tekjurnar of eldinu eru þekktar. Fórnin af ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar er um 18 milljarðar króna á ári.
Það liggja engar handbærar upplýsingar um tekjur af stangveiðinni úr ánum þremur. Hagstofan játar sig sigraða og segist ekki fá nauðsynlegar upplýsingar um tekjur af sölu stangveiðileyfi. Eina sem hægt er að vísa til er skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir veiðifélögin. Hagfræðistofnunin fékk aðgang að upplýsingum sem Hagstofan hefur ekki og samkvæmt því voru beinar tekjur af stangveiðinni 4,9 milljarðar króna árið 2018. Giskað hefur verið að hlutur ánna þriggja í Ísafjarðardjúpinu gæti verið liðlega 1% af því eða um 49 m.kr.
Sé það nærri lagi er um 18 milljörðum króna tekjum fórnað fyrir um 50 m.kr. tekjur og svo má reikna það sem ávinning að laxastofnarnir í ánum þremur búa ekki við áhættu af erfðablöndum við eldislax.
Það er líka hægt að reikna fórnarkostnaðinn af því að veiða hvern lax á stöng. Í fyrra veiddust 237 laxar í Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá. Til þess að vernda þessa laxa er fórnað 18 milljörðum króna – á hverju ári. Það gerir 76 milljónir króna fórn á hvern veiddan lax.
Þessi tala breytist í takt við veiðina. Síðustu árin hefur hún ekki verið fjarri veiðinni í fyrra en meðalveiðin 1984-2020 er 601 lax. Þótt miðað sé við t.d. 500 laxa veiði hleypur fórnarkostnaðurinn á tugum milljóna fyrir hvern lax.
Séu veiðitölur aðeins metnar út frá borðleggjandi freistnivanda þá er það hagur þeirra sem selja laxveiðileyfi að gefa upp sem mesta veiði. Það er freistnivandinn og eftirlitið með áreiðanleika veiðitalnanna er ekki það áreiðanlegasta, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Draga má saman afstöðu Hafrannsóknarstofnunar þannig að stofnunin vilji fórna tugum milljarða króna árlega til þess að verja lax af óljósum uppruna fyrir enn óljósari hugsanlegum skaða. Það vantar töluvert upp á vísindin í meðhöndlun stofnunarinnar.
Tvöfalt dýrari en Hafliði
Svo má á gamansömum nótum bera þetta mat Hafrannsóknarstofnunar saman við frægasta okur Íslandssögunnar. Það var þegar Hafliði Másson fékk sjálfdæmi um bætur sér til handa fyrir þrjá fingur.
Frá því segir í Þorgils sögu og Hafliða. Þeir storkuðu hvor öðrum á Alþingi árið 1120 og Þorgils hjó þá til Hafliða. Lagið kom á öxarskaftið og sneið af löngutöng og hluta af tveimur öðrum fingrum Hafliða. Hann dæmdi sjálfum sér mikið fé í skaðabætur, 240 hundruð sem var feiknamikið fé, samsvaraði 5760 dagsverkum um heyannir eða 240-320 kýrverðum. Um bótafjárhæðina sagði Skapti Þórarinsson. „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur,“
Þóttu þetta óheyrilegar bætur. En 76 milljóna króna stangveiddi laxinn í Djúpinu slær alveg Hafliða við. Í skattmat Ríkisskattstjóra er kýrverðið 140 þúsund króna svo þessi lax samsvarar 540 kýrverðum. Og er nú Hafliði aðeins hálfdrættingur á við „bæturnar“ sem við Vestfirðingar þurfum að greiða samkvæmt úrskurði Hafrannsóknarstofnunar.
-k