Handknattleiksdeild Harðar Ísafirði: þjálfarinn áfram og 3 nýir erlendir leikmenn

Japanski leikmaðurinn Kasahara. Myndir: Hörður.

Hörður Ísafirði hefur haldið úti handknattleiksdeild undanfarin ár og tekið m.a. þátt í Grill66 deildinni í karlaboltanum, sem samsvarar næstefstu deild. Handknattleikurinn á sér ekki langa sögu á Ísafirði síðustu áratugi en Ísfirðingar hafa tekið miklum framförum og komust í undanúrslit um sæti í efstu deild á síðustu leiktíð.

Handknattleiksdeild Harðar undirbýr nú næsta leiktímabil og framlengdu um þrjú ár á dögunum samning félagsins við spænska þjálfarann Carlos Martin Santos. Hann er með meistaragráðu í handboltaþjálfun frá Barcelona og hefur sýnt það undanfarin tvö ár að hann er á meðal efnilegustu þjálfara sem fyrirfinnast segir í umsögn Harðar. Carlos kom vestur til Ísafjarðar frá Benidorm þar sem hann var áður aðstoðarþjálfari.

Carlos Martin Santos.

Þrír erlendir leikmenn og Ólýmpíufari

Þá var í gær tilkynnt um samning Harðar við þrjá erlenda leikmenn sem munu spila með liðinu næsta vetur, þar af er einn Ólympíufari í Japan. Einn er spænskur, annar ungverskur og sá þriðji japanskur.

Mikel Amilibia Arrista kemur til Harðar frá Spáni en Mikel er 23 ára vinstri skytta sem á að baki 29 landsleiki fyrir yngri landslið Spánar og 26 fyrir U21 lið þeirra. Hann kemur til Harðar á tveggja ára samningi.

Levente Morvai er 21 árs ungverskur vinstri hornamaður / miðjumaður. Levente var á meðal efnilegustu leikmanna ungverja á sínum tíma og kemur til Harðar til að ná sér á strik og ná hámarksárangri. Hann kemur á tveggja ára samningi.

Kenya Kasahara kemur til félagsins frá Toyota Auto í Japan. Hann er 33 ára línumaður og byrjunarmaður í japanska landsliðinu. Hann er 197cm á hæð og spilar þrist í vörn. Hann mun koma til með að styrkja liðið mjög varnarlega. Þessa dagana spilar hann með japanska landsliðinu á Ólympíuleikunum.

DEILA