Ísafjörður: uggandi um frekari skipakomur

Viking Jupiter er lengri en tveir fullorðnir knattspyrnuvellir lagði saman. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Tvö stór farþegaskip voru í Ísafjarðarhöfn í gær og með þeim voru um 1000 erlendir ferðamenn. Mikið var að gera hjá rútufyrirtækjum og annarri ferðaþjónustu, að ekki sé talað um að margt var um manninn á götum bæjarins.

Þetta voru skipin Ocean Diamond og Viking Jupiter. Bæði eru þau stór. Ocean Diamond er 124 metra langt og Viking Jupiter hvorki meira né minna en 227 metra langt. Engu að síður lögðust þau bæði að kanti í Sundahöfn og Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri sagði engin vandkvæði á því að taka við stærri skipum þegar lokið væri við stækkun Sundahafnar.

Ísafjarðarhöfn hefur drjúgar tekjur af og skaut Guðmundur á að hafnargjöldin af þeim væri 3-4 milljónir króna.

Fyrsta skemmtiferðaskipið þetta sumarið kom fyrir mánuði og þá var búist við allt að 60 skipakomum í ár. En enn á ný hafa á skammri stund skipast veður í lofti og heyra mátti á hafnarstjóra að hann hafði áhyggjur af væntanlegum sóttvarnaraðgerðum, sem hafa verið boðaðar, en verða væntanlega ekki ákveðnar fyrr en síðar í dag.

DEILA