Gvendarlaug hins góða, ylvolg 25m sundlaug, með náttúrulegu heitu vatni (37°C) og náttúrulegur heitur pottur (41°C) eru við Hótel Laugarhól í Bjarnafirði. Laugin og potturinn eru vinsæll viðkomustaður hjá lúnum ferðalöngum.
Sundlaugin á sér merka sögu en hún var byggð á fimmta áratug síðustu aldar með sameiginlegu átaki bænda úr hreppnum. Búningsklefar eru við laugina og í anddyri þeirra er sýning sem greinir í máli og myndum frá byggingu laugarinnar.
Skammt ofan við búningsklefana er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Hún er talin búa yfir lækningamætti og er nú friðuð og í umsjá Minjastofnunar. Vatnið úr þeirri laug sem alla tíð hefur þótt mikil heilsulind er nú leitt í sundlaugina.
Laugin er enn þann dag í dag með bestu laugum, lögleg keppnislaug, vel volg og þægileg. Um 2-3000 manns synda í lauginni árlega, þrátt fyrir að nýrri laugar hafi verið teknar í notkun í nágrenninu.
Engin baðvarsla eða sundgæsla er á staðnum og fólk fer í laugina og pottana á eigin ábyrgð.
Af strandir.is