Eigendur fyrirtækjanna Vestfiskur á Flateyri og Vestfiskur í Suðavík vilja bregðast við þörf á endurnýjun þurrkklefa og tækjabúnaði í Súðavík með því að sameina félögin og fá þannig efnahagslegan styrk til þess að standa undir fjárfestingunni og jafnframt gera þær breytingar á starfsemi félaganna að færa hluta af framleiðslunni í Súðavík til Flateyrar og færa alla pökkun félagsins á Flateyri til Súðavíkur. Með þessu aðgerðum telja eigendurnir sig geta viðhaldið störfunum í Súðavík. Helstu eigendur eru Klofningur, Aurora Seafood og Fiskvinnslan Íslandssaga.
Þetta kemur fram í erindi félagsins til sveitarstjórnar Súðavíkur.
Í Súðavík starfa 8 mann við verkun og sölu á harðfiski. Félagið var stofnað 1993.
Vestfiskur á Flateyri var stofnað í mars 2020 utan um byggðakvóta Flateyrar sem félagið fékk til sex ára. Hjá fyrirtækinu starfa um 25 manns. Byggð hefur verið upp aðstaða að Hafnarbakka 8 með þremur nýjum þurrkklefum sem afkasta 15 tonnum á dag. Í vinnslunni er verkað og þurrkað sæbjúgu, roð og hryggir. Skipið Tindur ÍS er gert út til veiða á sæbjúgum og bolfiski. Þá eru einnig verkuð og þurrkuð lambahorn í öðru húsnæði á Flateyri.
Er óskað eftir því að Súðavíkurhreppur geri samning við sameinað fyrirtæki um byggðakvótann í Súðavík.
Í bókun sveitarstjórnar síðastliðinn föstudag segir að sveitarstjórnin leggi áherslu á að ekki verði samdráttur í starfseminni í Súðavík hvað varðar fjölda starfa og virði þeirra.