Leikarinn og leikstjórinn Þröstur Guðbjartsson er látinn, 68 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítala í Kópavogi laugardaginn 17. júlí að því er fram kemur í tilkynningu frá fjölskyldunni í Morgunblaðinu í dag.
Þröstur var hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Ella í kvikmyndinni Sódóma Reykjavík sem kom út árið 1992. Þar að auki hefur hann farið með hlutverk í fjölda íslenskra kvikmynda, þátta og leikrita í gegnum árin.
Þröstur fæddist í Bolungarvík og ólst þar upp til níu ára aldurs en síðan í Reykjavík, auk þess sem hann var í sveit í Máskeldu í Saurbæ í Dalasýslu til fimmtán ára aldurs. Hann var í Barnaskóla í Bolungarvík, í Austurbæjarskólanum, einn vetur í Reykjaskóla í Hrútafirði, lauk sveinsprófi í bakaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1973, stundaði nám við Leiklistarskólann Sál 1974 einn vetur og útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1978. Hann vann sem leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar og fleiri leikhúsum í gegnum árin.
Útför Þrastar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju mánudaginn 26. júlí klukkan 13.