Bæjarráð afgreiddi á síðasta fundi sínum umsögn skipulagsfulltrúa um leyfi til að reka veitingastað í flokki III, Vagninn, Hafnarstræti 15 á Flateyri.
Umsækjandi lagði inn umsókn til Sýslumannsembættisins á Vestfjörðum í janúar. Þann 3.2. sendi Sýslumaðurinn beiðni um umsögn sveitarfélagsins eins og áskilið er skv. lögum.
Þann 17. mars lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa bæjarins sem þurfti að fara fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn til samþykktar. Gerir skipulagsfulltrúi ekki athugasemdir við útgáfu leyfisins.
Slökkvilið Ísafjarðarbæjar fellst á að leyfi verði veitt fyrir 150 manns, með fyrirvara um úrbætur eldvarna, í umsögn sinni dags. 18. mars 2021.
Samþykkt bæjarráðs kom ekki fyrr en 12. júlí eða nærri fjórum mánuðum eftir að umsögn embættismanns bæjarins lá fyrir.
Kómedíuleikhúsið – nærri árs bið
Einng var afgreidd umsögn skipulagsfulltrúa um umsókn Kómedíuleikhússins um leyfi til að reka veitingastað í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í Dýrafirði.
Umsókn leikhússins til Sýslumanns er dagsett 5. ágúst 2020. Þann 24. nóvember sendir embættið beiðni til Ísafjarðarbæjar um umsögn og biður um hana innan 45 daga. Það er fyrir 8.janúar 2021. Skipulagsfulltrúi bæjarins gefur hana 17. mars 2021. Bæjarráðið afgreiðir umsögnin 12. júlí 2021. Þá eru komnir rúmir 6 mánuðir framyfir ósk sýslumannsembættisins. Þá á Sýslumaðurinn á Vestfjörðum eftir að gefa út leyfið að því gefnu að umsagnir styðji það.
Skipulagsfulltrúi gerir ekki athugasemd við útgáfu rekstrarleyfisins og slökkvilið Ísafjarðarbæjar fellst á leyfi fyrir 40 manns í umsögn 7.4. 2021.
Mörg erindi hjá umhverfis- og eignasviði
Spurst var fyrir um ástæður þessarar tafar hjá Ísafjarðarbæ og fengust þau svör frá umhverfis- og eignasviði að ástæðan fyrir þessum langa afgreiðslutíma væri meðal annars hinn mikli fjöldi erinda sem vinna þarf á sviðinu. Þar er málum því forgangsraðað eftir því hversu mikið liggur á þeim og umsagnir um rekstrarleyfi gjarnan afgreiddar saman á einu bretti þegar þær hafa safnast upp.
Á meðan beðið er eftir nýjum umsögnum starfa flest fyrirtæki á eldri rekstrarleyfum segir í svarinu.