Útflutningsverðmæti eldisafurða voru 3,2 milljarðar króna í síðasta mánuði og jukust um 67% frá júnímánuði í fyrra. Þetta kemur fram í rafrænu fréttabréfi SFS frá því í gær. Mikil aukning hefur verið á útflutningi síðustu ár og var síðasti mánuður stærsti júnímánuður frá upphafi.
Á fyrstu 6 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 18,8 milljarða króna. Það er um 38% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, þá hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei áður verið meira á tímabilinu. Það er um 5,5% af heildarverðmæti vöruútflutnings á tímabilinu og hefur það hlutfall aldrei verið hærra á þessum hluta árs.
Fleiri störf í fiskeldi og hærri laun
Í tilraunatölfræði sem Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur kemur fram að veruleg fjölgun hefur orðið á einstaklingum sem fá laun frá fiskeldi. Að jafnaði voru um 540 talsins á mánuði á fyrstu 4 mánuðum ársins og hefur fjölgað statt og stöðugt með hverju ári frá árinu 2008 þegar þau voru 167.
Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi voru 732 þús kr á mánuði en í hagkerfi í heild voru þau 648 þús kr. fyrstu fjóra manuði þessa árs. Ekki er tekið tillit til vinnutíma í þessum tölum.
Aukin framleiðsla
Horfur eru á frekari aukningu í eldi, bæði á sjó og landi. Mikil endurnýjun og uppbygging hefur orðið á seiðastöðvum á undanförnum árum, sem skila þar með stöðugt fleiri seiðum til áframeldis. Miðað við fjölda út settra laxaseiða áætlar sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST að magn sláturslax úr sjókvíum verði um 43,5 þúsund tonn í ár, 50 þúsund á næsta ári og 55 þúsund árið 2023. Til samanburðar má nefna að árið 2020 var magn sláturslax rúm 32 þúsund tonn úr sjókví.