Hafnir Ísafjarðarbæjar hafa nú komið fyrir loftgæðamælum á Flateyri, Suðureyri, Þingeyri og á þremur stöðum í Skutulsfirði. Mælarnir gera sveitarfélaginu kleift að fylgjast vel með loftgæðum, t.d. þegar stór skip eru í höfn. Frá þessu er greint á vefsíðu Ísafjarðarbæjar.
Hægt er að skoða stöðu loftgæða hér:
Með því að smella á mælana á kortinu er hægt að fá upplýsingar um loftgæði viku aftur í tímann. Vakin er athygli á því að mælarnir sýna stundum háa, tímabundna toppa en þá er oft hægt að rekja til bíla í lausagangi í grennd við mælana eða jafnvel til þess að verið er að grilla í nágrenninu.
Bæjarins besta athugaði mengunina á Ísafirði í hádeginu og mælirinn sýndi 0, sem þýðir engin mengun.