Sjúkraflugvél Mýflugs, sem flytja átti sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gærkvöldi, var flogið til Akureyrar vegna veðurs. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpins. Suðvestanstormur var á suðvesturhorni landsins og allt innanlandsflug lá niðri. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, segir að aðstæður á Reykjavíkurflugvelli hafi verið alveg á mörkum þess sem sjúkraflugvélin þolir, ef aðeins var horft til meðalvindhraða.
Þorkell sagði í samtali við Ríkisútvarpið að við ríkjandi veðuraðstæður hefði ekki verið neinum vandkvæðum bundið að lenda á suðvestur-brautinni í Reykjavík, sem lokað var í sumar.
Ísfirðingurinn Guðrún Kristín Bjarnadóttir, móðir Birkis Snæs, sem hefur verið veikur undanfarið ár og þarf reglulega að komast undir læknishendur tekur sterkt til orða: „Þetta gerir mig ótrúlega reiða! Ég vona innilega að ég verði aldrei í þeim sporum að komast ekki suður þegar við þurfum. Birkir Snær verður ótrúlega fljótt alvarlega veikur og þarf að komast til lækna sem þekkja hann vel.“
„Ríkisstjórnin verður að fara girða sig í brók og henda almennilegu fjármagni í þær heilbrigðisstofnanir utá landi til þess að þær séu betur búnar til að takast á við alvarleg tilfelli,“ bætir Guðrún Kristín við í stöðuuppfærslu á Facebook.
„Stofnanirnar okkar eru svo sveltar að fjármagni að það er hrikalegt að verða vitni að þvi. Sjúkrahúsið okkar hér fyrir vestan hefur frà því að Birkir greindist gert allt sem þau geta fyrir okkur. Það eru hinsvegar ýmsir hlutir sem hann þarf sem ekki eru til hér. Það er ekki vegna viljaleysis starfsfólks heldur fjárskorts,“ segir Guðrún Kristín.