Fasteignagjöld viðmiðunarhúss í eldra hverfi á Ísafirði með því hæsta á landinu

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fasteignagjöld svonefnds viðmiðunarhúss eru með því hæsta á landinu á eyrinni í Skutulsfirði. Heildargjöldin eru 444 þúsund krónur og eru þau sjöttu hæstu á landinu. Hæst eru gjöldin á Seltjarnarnesi 489 þúsund krónur. Fasteignamat hússins með lóðamati er 87 milljónir króna sé það staðsett á Seltjarnarnesi en 36 m.kr. á Ísafirði.

Þetta kemur fram í skýrslu Þjóðskrár Íslands sem unnin var fyrir Byggðastofnun.

Fasteignagjöldin á Seltjarnarnesi eru því sem svarar 5.620 kr af hverri milljón kr fasteignarinnar en rúmlega tvöfalt hærri á Ísafirði eða 12.333 kr af hverri milljón kr.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2021 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem Þjóðskrá reiknar og gildir frá 31. desember 2020.

Til fasteignagjalda teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald. Mismunandi álagningarreglur eru í sveitarfélögunum og er fasteignaskattur t.d. frá 0,18% – 0,625% af fasteignamatinu. Á höfuðborgarsvæðinu er fasteignaskatturinn mældur í % mun lægri en t.d. á Vestfjörðum.

Hæst fasteignagjöld á Ísafirði

Hæst eru fasteignagjöldin á Vestfjörðum á eyrinni í Skutulsfirði 444 þúsund kr. en lægst á Flateyri, rétt innan við 200 þúsund kr.

þús kr
Ísafjörður eldri byggð444
Ísafjörður nýrri byggð393
Patreksfjörður373
Bíldudalur335
Tálknafjörður317
Bolungavík274
Hólmavík234
Súðavík222
Hnífsdalur220
Þingeyri215
Suðureyri200
Flateyri198
Ekki eru upplýsingar um Reykhóla og Drangsnes.

DEILA