Kristján Sigurður Aðalsteinsson fæddist í Haukadal við Dýrafjörð þann 30. júní 1906. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Aðalsteinsson, bóndi á Hrauni í Dýrafirði og skipstjóri á Byggðarenda á Þingeyri, og k.h., Kristín Kristjánsdóttir húsfreyja. Aðalsteinn var sonur Aðalsteins Pálssonar, útgerðarbónda á Hrauni, og Jónínu Rósmundu Kristjánsdóttur, en Kristín var dóttir Kristjáns Guðmundssonar, útgerðarbónda á Vattarnesi, og Petrínu Pétursdóttur.
Eiginkona Kristjáns var Bára, dóttir Ólafs Sumarliðasonar, skipstjóra á Akureyri, og Jóhönnu Björnsdóttur. Dóttir Kristjáns og Báru er Erna lyfjafræðingur.
Kristján lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1932. Hann fór fyrst til sjós nýfermdur, var háseti á kútter Pilot frá Bíldudal í tvö ár, á eimskipinu Willemoes 1922-26, á Lagarfossi 1926-28, á dönsku farskipi í eitt ár, háseti á Lagarfossi, Goðafossi og Brúarfossi 1929-32, var annar stýrimaður á Heklu 1934-35, annar og þriðji stýrimaður á Gullfossi 1935-40, er skipið var hertekiið af Þjóðverjum, kom heim með Esju í Petsamoferðinni 1940, var síðan stýrimaður á Selfossi, Lagarfossi, Brúarfossi, Dettifossi og Gullfossi til 1953.
Kristján var fastráðinn skipstjóri hjá Eimskipum 1953, varð skipstjóri á Gullfossi 1958 og var síðasti skipstjóri þessa flaggskips íslenska farskipaflotans, eða þar til skipið var selt úr landi, 1973. Þá hætti Kristján til sjós og varð umsjónarmaður Þórshamars, húss Alþingis.
Kristján sat í stjórn Stýrimannafélags Íslands 1935-46, var forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1961-63, varamaður í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og formaður skólaráðs Stýrimannaskólans, var heiðursfélagi SKFÍ, var sæmdur fyrstu gráðu Dannebrogsorðunnar og heiðursmerki sjómannadagsins.
Kristján Aðalsteinsson þann lést 14. mars 1996.
Gullfoss við bryggju í Kaupmannahöfn.
Skráð af Menningar-Bakki.