Nýjir eigendur taka við Samey sjálfvirknimiðstöð

Gengið hefur verið frá kaupum á öllu hlutafé í Samey sjálfvirknimiðstöð.  Kaupendur er félagið Samey Holding ehf en á bakvið það standa Bjarni Ármannsson, Kristján Karl Aðalsteinsson og Vygandas Srebalius.  Félagið var keypt af frumkvöðlunum sem byggt hafa félagið upp frá árinu 1989 og komið því í leiðandi stöðu á sínu sviði.

Ráðgjafi kaupanda var Arion banki og LEX lögmannsstofa og ráðgjafi seljenda var Deloitte á Íslandi.

Samey hefur í yfir 30 ár verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensk iðnaðar og brautryðjandi í notkun þjarka í sjálfvirkni.  Samey hefur með þessum lausnum aðstoðað fjölda fyrirtækja til  lands og sjávar á farsælan og árangursríkan hátt við að auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni.   Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey.  Árangur undanfarinna ára hefur verið sérlega marktækur og hefur Samey afhent mörg stór kerfi fyrir laxeldi á Íslandi, Færeyjum og í Noregi. Einnig eru lausnir frá Samey víða í fiskvinnslum landsins og þar má t.d. nefna í nýju hátækni fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík og Brim í Reykjavík.

Kristján mun ásamt Haraldi Þorkelssyni, framkvæmdastjóra félagsins og syni stofnandans mynda framkvæmdastjórn félagsins.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að taka þátt í þessari vegferð sem ég er sannfærður um að á eftir að vera farsæl fyrir viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa Sameyjar.  Staða félagsins er sterk á sínu sviði.  Samstarf við önnur hátæknifyrirtæki og okkar viðskiptavini og skilningur á þeirra verkefnum hefur verið lykilatriði við að búa til verðmætar lausnir í að sjálfvirknivæða verkferla sem sífellt verður auðveldara og ódýrara með bættri tækni og þekkingu.“

Hjá Samey kemur saman víðtæk þekking á vinnsluferlum í sjávarútvegi, bæði frumvinnslu villts sjávarfangs og í fiskeldi.  Það ásamt tækniþekkingu býr til einstaka stöðu.  Það skýrir árangur félagsins á undanförnum árum segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þjarkakerfi og heildarlausnir fyrirtækisins skipta nú hundruðum víðs vegar um heiminn.

„Við munum halda áfram uppbyggingu starfseminnar og sjáum framá að þurfa að bæta við starfsmönnum þar sem tækifærin í sjálfvirknivæðingu eru víða og framtíðin björt“ segir Kristján.

DEILA