Mikill munur á algengum heimilis- og byggingavörum í byggingaverslunum

Í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ í byggingaverslunum kemur fram að yfir 100% munur getur verið á hæsta og lægsta verði á mörgum algengum vörum eins og efni í pallasmíði, málningarvörum, verkfærum, bílavörum og byggingavörum.

Sem dæmi var 198% munur á hæsta og lægsta verði á fjöltengi, 171% verðmunur á hefðbundnum strákústi og 165% verðmunur á 3 metra HDMI snúru. Þá var 177% verðmunur á sandpappír, 46% verðmunur á alhefluðu Lerki sem er mikið notað í pallasmíði og 209% verðmunur á lægsta stykkjaverði af ryðfríum tréskrúfum.

Könnunin var gerð í verslun Byko í Breiddinni, Húsasmiðjunni í Skútuvogi, Bauhaus og Múrbúðinni, Fosshálsi. Byko var með mesta úrvalið, 44 af 51 vöru sem skoðaðar voru en Múrbúðin minnsta úrvalið, 21 vöru.

165% verðmunur á HDMI snúru og 177% verðmunur á sandpappír
Mesti munur á hæsta og lægsta verði á algengum heimilisvörum var 198% munur á hæsta og lægsta verði á sexföldu fjöltengi með 1,5 m snúru, barnaöryggi og rofa. Hæsta verðið var í Bauhaus, 4.495 kr. en lægsta verðið í Byko, 1.507 kr. 165% munur var á hæsta og lægsta verði á 3 metra HDMI snúru, lægsta verðið var í Byko, 1507 kr. en hæsta verðið í Bauhaus, 3.995 kr. Þessar vörur voru einungis til í þessum tveimur verslunum. 171% munur var á hæsta og lægsta verði á hefðbundnum strákústi og 92% á smíði á hefðbundnum húslykli en upplýsingar um verð í verslununum má sjá með því að fletta í töflunni hér að neðan.

Mikill verðmunur á við og skrúfum í pallasmíði
Mestur munur á efni í pall var 46% munur á hæsta og lægsta verði af alhefluðu lerki (21*95 mm). Lægsta verðið á lengdar metranum af lerkinu var hjá Bauhaus, 536 kr. en hæsta verðið í Húsasmiðjunni, 785 kr.
Þá var 209% munur á hæsta og lægsta stk. verði af ryðfríum tréskrúfum. Lægsta verðið var í Húsasmiðjunni, 11 kr. en hæsta verðið í Byko, 34 kr.

66% munur á hæsta og lægsta verði á Birkikrossviði
Verðkönnunin innihélt einnig byggingavörur sem eru sennilega ekki eins mikið keyptar en eru nauðsynlegar ef byggja þarf hús eða setja upp veggi. Af slíkum byggingavörum var mestur munur á hæsta og lægsta verði á birkikrossviði, 12 mm, 125*250 cm, 66%. Lægst var verðið í Bauhaus, 8.006 kr. en hæst var verðið í Húsasmiðjunni, 13.290 kr. Þá var 45% munur á hæsta og lægsta verði á byggingaplasti en lægsta verðið var að finna í Múrbúðinni, 9.995 kr. en hæsta verðið í Húsasmiðjunni, 14.485 kr.

DEILA