Í bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 16. júní segir að með setningu laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 [Rammaáætlun] hafi verið fyrir það skotið að virkjunarkostir sem hafa uppsett rafafl 10MW eða meira yrðu heimilaðir innan marka friðlandsins í Vatnsfirði, nema til komi endurskoðun rammaáætlunar. Ennfremur segir í bókuninni að friðlýsingarskilmálar friðlandsins í Vatnsfirði og ákvæði laga um verndar- og nýtingaráætlun komi í veg fyrir stærri virkjunarframkvæmdir innan núverandi marka friðlandsins í Vatnsfirði.
Bæjarstjórnin er því ósammála Orkubúi Vestfjarða sem telur að með því að setja hemildir til athugunar á virkjunarkostum inn í friðlýsingarskilmála verði hægt að ráðast í rannsóknir og eftir atvikum framkvæmdir við virkjun að undangegnu mati á umhverfisáhrifum.
Elías Jónatansson, Orkubússtjóri var beðinn um viðbrögð við bókun bæjarstjórnarinnar.
Þau fara hér á eftir:
„Í fyrsta lagi þá var megin niðurstaða starfshópsins um friðlýsingu þjóðgarðs á Vestfjörðum að upphaflegir friðlýsingarskilmálar væru í fullu gildi og hefðu ekkert breyst í þau 45 ár síðan þeir voru settir. Þetta kom skilmerkilega fram á opnum kynningarfundi starfshópsins fyrir almenning, sem haldinn var þann 19. maí sl.
Í upphaflegu skilmálunum stendur:
Í 1. gr. stendur: Mannvirkjagerð og jarðrask og hvers konar breytingar á landi eru háðar leyfi (Umhverfisstofnunar)
í 5. gr. stendur: Bannað er að skerða gróður, trufla dýralíf og skemma jarðmyndanir eða aðrar minjar að óþörfu.
í 8. gr. stendur: Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi (Umhverfisstofnunar) eða þess sem fer með umboð stofnunarinnar.
Augljóslega gefa skilmálarnir til kynna að Umhverfisstofnun getur gefið heimild til framkvæmda innan friðlandsins og hefur vald til að breyta skilmálunum eða gefa undanþágur. Þessu ákvæði hefur greinilega verið beitt við samningu nýrra skilmála um þjóðgarð varðandi orkuflutning og vegagerð innan friðlandsins í Vatnsfirði og því vandséð hvers vegna ekki megi beita því sama ákvæði gagnvart orkuöflun. Breyting í þá veru að heimild væri gefin til að kanna möguleika á virkjun yfir 10 MW að stærð myndi þýða að hægt væri að taka slíkan valkost til meðferðar í rammaáætlun.
Það hefði þurft talsvert mikla framsýni hjá þeim sem stóðu að gerð friðlýsingarskilmálanna árið 1975 ef þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir því að setja þyrfti ákvæði inn í skilmálanna um virkjanamöguleika, vegna laga sem sett yrðu 36 árum síðar.
Ekki má gleyma því að í 1. gr. laga þeirra sem vísað er til í bókun Vesturbyggðar stendur einmitt:
„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“
Lögunum er einmitt ætlað að tryggja að byggt sé á heildstæðu hagsmunamati þar sem horft sé bæði til verndarsjónarmiða og hagkvæmni ásamt arðsemi og annarra gilda sem varða þjóðarhag (þ.á.m. Vestfirðinga).
Það var einmitt ábending Orkubúsins til starfshópsins að ef vilji væri til þess að leyfa orkunýtingu þá þyrfti að setja slíkt ákvæði inn í friðlýsingarskilmálana. Fulltrúar starfshópsins töldu það á þeim tíma óþarft.
Bókun Vesturbyggðar leiðir ótvírætt í ljós að málið hefur ekki verið krufið til mergjar innan starfshópsins, sem er í sjálfu sér miður þar sem starfshópurinn hefur lokið störfum að því er virðist. Úr því má hins vegar vel bæta ef stjórnvöld gefa málinu það andrými sem það þarf.
Hvað þýða upphaflegir skilmálar?
Til þess að styðja það sjónarmið að það hafi einmitt verið ætlunin í upphaflegum skilmálum að orkunýting væri heimil þá má lita til þess að eftir að friðlýsing tók gildi 1975 þá voru unnar skýrslur á vegum Orkustofnunar sem komu út í maí 1976, apríl 1977, júní 1977 og september 1988 sem allar fjölluðu um Vatnsfjarðarvirkjun. Ekki er hægt af þessu að draga þá ályktun að það hafi verið skilningurinn að orkunýting innan friðlandsins hafi verið bönnuð skv. skilmálunum, heldur fremur hið gagnstæða, hún hafi verið heimil. Fleiri úttektir og skýrslur mætti nefna þessu til stuðnings.
Hvernig leit Náttúruverndarráð á skilmálana?
Þá má líka horfa til þeirra skýringa á forsendum friðlýsingarinnar sem koma skýrt fram „Kjallaragrein“ í DV þann 28. september 1988, en greinin er skrifuð fyrir hönd Náttúruverndarráðs af þáverandi framkvæmdastjóra ráðsins Þóroddi Þóroddssyni. Þar stendur:
„Þær forsendur sem lágu að baki friðlýsingu Vatnsfjarðar 1975 voru þær að í Vatnsfirði væri enn nokkuð mikið eftir af þeim birkiskógi og kjarri sem í upphafi landnáms klæddi landið „frá fjöru til fjalls“ og að auki væri svæðið vel fallið til útivistar. Gróðurvernd, og þá fyrst og fremst verndun skógarins, hefur síðan verið efst á blaði í umfjöllun Náttúruverndarráðs um þetta landssvæði“
Þess má geta að lausleg skoðun á Vatnsfjarðarvirkjun bendir ekki til þess að neinum birkiskógi yrði fórnað yrði hún að veruleika. Auk þess yrði svæðið kjörið til útivistar áfram.
Allt mun þetta þó verða skoðað komi til þess að Vatnsfjarðarvirkjun verði sett í umhverfismat og það ferli sem lög um rammaáætlun gera ráð fyrir. Um það ættu allir hagsmunaaðilar málsins að geta verið sammála.“