Á aðalfundi Landverndar sem haldinn var um helgina var samþykkt ályktun um gjaldtöku fyrir notkun á nagladekkjum á höfuðborgarsvæðinu.
Aðalfundurinn skorar á borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnir Hafnarfjarðar, Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar, auk sveitarfélaga í nágrenninu, að taka, að norskri fyrirmynd, upp gjald á þá bíla sem eru á negldum dekkjum. Það mundi auka til muna gæði andrúmslofts í Reykjavík, og minnka þar með ótímabundin dauðsföll vegna svifryksmengunar, og vonandi koma í veg fyrir það að farið verði yfir viðmiðunarmörk segir í ályktuninni.
Utanbæjarmenn á nagladekkjum greiði fyrir aðganginn að höfuðborgarsvæðinu
„Með því að fylgt verði fordæmi Norðmanna og innheimt gjald fyrir nagladekkjanotkun geta þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og kjósa að aka þar á nagladekkjum greitt fyrir aðgang, ýmist árgjald, mánaðargjald eða daggjald.“
Fram kemur í greinargerð með samþykktinni að um 40% bíla hafi undanfarin ár verið á nagladekkjum. Í skýrslu um áhrif hraða á mengun vegna umferðar sem kom út í apríl 2021 og unnin var fyrir Vegagerðina komi fram að negldir bílar slíta vegum a.m.k. 20-falt meira en ónegldir og er nagladekkjanotkun yfirgnæfandi orsakaþáttur við framleiðslu svifryks frá umferð í Reykjavík.
Höfundur skýrslunnar er Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfisfræði á verkfræði- og náttúrufræðisviði Háskóla Íslands.
Lokaorð greinargerðarinn eru eftirfarandi:
„Með því að fylgt sé fordæmi Norðmanna og innheimt gjald fyrir nagladekkjanotkun geta þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og kjósa að aka um á nagladekkjum greitt fyrir aðgang að gatnakerfi höfuðborgarinnar eða höfuðborgarsvæðisins, ýmist árgjald, mánaðargjald eða daggjald. Í þess konar kerfi felst sveigjanleiki en um leið dregur úr líkum á að hinn almenni borgarbúi ákveði að nota nagladekk, og þeir sem slíta vegunum mikið greiða meira en aðrir. Auk þess mundi slíkt gjald senda út skýr skilaboð frá borginni um að það sé óæskilegt að aka um á nagladekkjum.“