Geðhjálp, Hjálparsími Rauða krossins og geðræktarfélagið Hugrún bjóða kennurum (unglingadeilda grunnskóla og framhaldsskóla), starfsmönnum í velferðarþjónustu og öðrum sem vinna með ungu fólki upp á forvarnarfræðslu miðaða að ungu fólki í framhaldsskólanum á Ísafirði miðvikudaginn 19. apríl milli kl. 13 og 15. Fyrri hluti kynningarinnar felst í almennri fræðslu á vegum Hugrúnar, félags lækna-, hjúkrunar- og sáfræðinema við HÍ, um andlega heilsu og helstu geðraskanir. Seinni hlutinn felst í kynningu á vegum Geðhjálpar og Hjálparsímans um forvarnarverkefnið Útmeð‘a.
Útmeð‘a er sprottið uppúr grasrót félagasamtakanna tveggja og miðar að því að bæta geðheilsu ungs fólks með sérstakri áherslu á forvarnir í tengslum við sjálfsskaða og sjálfvíg. Yfirskriftin Útmeð‘a felur í sér ákall til þessa hóps um að birgja ekki inni flókin vandamál og tilfinningar heldur koma þeim í orð við sína nánustu og/eða leita sér viðeigandi aðstoðar.
Útmeð‘a hefur í grófum dráttum skipst í þrjá áfanga árin 2015, 2016 og 2017. Fyrsti áfanginn fólst í vitundarvakningu og fræðsluátaki til að fækka sjálfsvígum karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á Íslandi. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Alls falla á bilinu 7-9 ungir karlmenn fyrir eigin hendi á Íslandi hverju ári samkvæmt opinberum tölum og er talið að fjöldinn sé jafnvel enn meiri í raun.
Annar áfangi Útmeð‘a fól í sér áherslu á forvarnir í tengslum við sjálfskaða meðal ungra kvenna. Alls leita á bilinu 500 til 600 manns til heilsugæslu og sjúkrahúsa vegna sjálfsskaða á hverju ári. Af þeim leggjast um 120 inn á sjúkrahús og er meirihluti þeirra ungar konur. Rétt er að taka fram að sjálfsskaði er í fæstum tilvikum sjálfsvígstilraun heldur tjáning á óleystu vandamáli og/eða erfiðum tilfinningu.
Forvarnarmyndbönd um sjálfsvíg ungra karla og sjálfsskaða með áherslu á ungar konur voru frumsýnd af Útmeð‘a á Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna árin 2015 og 2016. Samhliða var opnuð heimasíða undir merkjum Útmeða www.utmeda.is fyrir fólk í geðrænum vanda, aðstandendur og fræðimenn. Þar er hægt að nálgast upplýsingar um vandann, ráð og úrræði.
Þriðji áfangi Útmeð‘a hefur falist í því að bjóða framhaldsskólakennurum, starfsmönnum í velferðarþjónustu og öðrum sem vinna með ungu fólki úti á landsbyggðinni upp á forvarnarfræðslu um sjálfsskaða og sjálfsvíg. Útmeð‘a hefur haldið kynningarnar í samstarfi við Hugrúnu, geðræktarfélag nema í læknisfræði, hjúkrunarfræði og sálfræði við HÍ. Stefnt er að því að bjóða upp á samsvarandi kynningar á höfuðborgarsvæðinu næsta haust.
Óhætt er að sega að Útmeð‘a hafi hlotið góðan hljómgrunn meðal almennings. Íþróttafólk, saumaklúbbar, fegurðardrottningar, nemar frá unglingadeildum upp í háskóla, stofnanir og einkafyrirtæki hafa lagt átakinu lið svo dæmi séu nefnd. Verkefnið hefur hlotið tilnefningar til verðlauna á borð við vefverðlauna og Íslensku auglýsingaverðlaunanna ásamt því að hafa vakið athygli fjölmiðla hér á landi og í nágrannalöndunum.
Erfitt er að meta árangurinn en forsvarsmenn verkefnisins líta svo á að þó að aðeins einu lífi hafi verið bjargað hafi öll vinnan verið þess virði enda sé hvert mannslíf óendanlega mikils virði.