Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari leikur allar sex einleikssvítur Johanns Sebastians Bach í tónleikaferðalagi um landið sumarið 2021. Fimmtudaginn 10. júní kl. 20 kemur Geirþrúður fram á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum í Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Sellósvítur Johanns Sebastians Bach eru perlur sellóbókmenntanna og meðal dásamlegustu verka klassískra tónbókmennta. Pablo Casals lýsti þeim sem glitrandi ljóðum í hljómænu formi. Í þessari sex þátta óperu fyrir einleiksselló, þar sem hver þáttur ber sinn eigin brag, tóntegund, og sérstæðu, tekur Bach flytjanda sem og hlustendur í ótrúlegt ferðalag. Frá fyrsta einfalda þríhljóminum, sem skapar hljóðheim fyrstu svítunnar, leiðir Bach okkur svo í gegnum innhverfu aðra svítuna, opinskáu þriðju svítuna, spámannslegu fjórðu svítuna, tregafullu og dramatísku fimmtu svítuna, og loks, hetjulegu og sigurglöðu sjöttu svítuna.
Geirþrúður er nýútskrifuð úr meistaranámi við hinn virta Juilliard skóla í New York. Hún lagið einning stund á sellónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Northwestern University í Chicago. Þegar hún stundaði nám á Íslandi var hún tvisvar nemandi á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði. Síðan þá hefur Geirþrúður komið víða við sem sellóleikari, haldið tónleika í Frakklandi, Hollandi, Danmörku og víðsvegar í Bandaríkjunum, og hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Hún hefur alltaf haft mikla ástríðu á kammertónlist og er meðlimur Kammersveitarinnar Elju hér á Íslandi. Næsta haust leggur Geirþrúður leið sína til London í frekara nám við Konunglega tónlistarháskólann en hún mun einnig koma fram reglulega í Bandaríkjunum sem meðlimur Arte kvartettsins.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr Tónlistarsjóði og Ýli – tónlistarsjóði Hörpu fyrir ungt fólk. Auk tónleikanna á Ísafirði kemur Geirþrúður einnig fram á Akranesi, Dalvík, Akureyri, Breiðdalsvík og í Reykjavík.
Aðgangseyrir á tónleikana er 3.500 kr / 2.500 kr. fyrir námsmenn, börn og eldri borgara.