Heimsókn á Hesteyri

Hesteyri.

Sumarið er svo sannarlega komið á Hesteyri. Læknishúsið er búið að opna og taka á móti fyrsta hópnum.

Yrðlingar frá fyrra ári eru fljótir að átta sig á að mannfólkið er mætt á svæðið og hika ekki við að koma alveg upp að húsinu og hafa jafnvel látið sig hafa það að koma alla leiðina inn enda orðnir gæfir með eindæmum í von sinni um auðsóttan matarbita.

Bókanir í ferðir til Hesteyrar ganga vonum framar miðað við þessa fordæmalausu tíma og væntingar að sögn Stígs Bergs Sophussonar eiganda Sjóferða sem og Hrólfs Vagnssonar rekstraraðila Læknishúsins.

Þónokkur aukning er í bókunum frá Íslendingum sem eru að uppgötva friðlandið og kannski ekki bara friðlandið heldur margir í raun og veru að uppgötva sitt eigið land.

Sjóferðir hafa bætt við ferðaflóruna hjá sér og eru farin að bjóða uppá kvöldferðir fyrir hópa og þeirri nýjung hefur verið vel tekið.

Hesteyri kemur vel undan vetri en ennþá er þónokkur snjór á svæðinu enda búið að vera kalt í allt vor.

Þó var strax sjáanlegur munur á þeim tveimur sólarhringum sem blaðamaður dvaldi á Hesteyri meðal annars að streymi jókst í ánni og bráðnun strax vel byrjuð enda var einstaklega gott veður, stilla, spegilsléttur sjór, hiti og steikjandi sól.

Hver þarf Spán þegar Hesteyri býður uppá sitt besta?

Myndir: Halla Lúthersdóttir.

Læknishúsið.
DEILA