Ísafjörður: breyta vatnsgjaldi fyrir stórnotendur en auka ekki afslátt

Rækjuverksmiðjan Kampi er stærsti notandi kalda vatnsins á Ísafirði.

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs segist ekki vita til þess að það standi yfir viðræður við Kampa um frekari afslætti af vatnsgjaldi. Hann segir stefnt að því að breyta gjaldskrá vatnskatts bæjarins þannig að hún henti stórnotendum eins og Kampa sem er langstærsti vatnskaupandi í bænum.

„Fram að þessu hefur verið gerður sérstakur samningur við Kampa um verulegan afslátt af vatnskaupum af þeirri notkun sem að félagið er með umfram aðra vatnskaupendur. Um það gjald hefur verið góð sátt frá stofnun félagins, að því að ég best veit, milli fyrirtækisins og bæjarins. Hugmyndin var að koma slíkum afsláttarkjörum inn í gjaldskrá bæjarins þannig að slíkur samningur væri öllum stórnotendum í boði og þá skráður í gjaldskrá.“

„Hinsvegar er það ekkert launungarmál að rekstur Kampa hefur verið þungur og félagið er í greiðslustöðvun. Skuld félagsins við bæinn er veruleg en vegna þess hversu stór vinnustaður Kampi er hefur bærinn ekki gengið hart fram í innheimtu á þeirri skuld. Frekar reynt að vinna með félaginu og gefa því tíma til að ná vopnum sínum. Hinsvegar er það þannig, lögum samkvæmt, að á meðan að greiðslustöðvun stendur verður félagið að standa skil á þeim gjöldum sem að félagið stofnar til á meðan að henni stendur. Við það hefur félagið náð að standa og vonir okkar eru til þess að þetta öfluga fyrirtæki nái vopnum sínum á ný og verði áfram fjölmennur vinnustaður með blómlegan rekstur sem getur þ.a.l. gert upp skuldir sínar við sveitarfélagið og aðra kröfuhafa á næstu misserum.“

Á dagskrá bæjarstjórnarfundar síðar í dag er tillaga frá umhverfis- og framkvæmdanefnd um að bæjarstjórn samþykki leiðréttingu á gjaldskrá vatnsveitu fyrir stórnotendur. Tillagan hefur ekki verið birt en í fundargerð nefndarinnar segir að hún sé lögð fram vegna leiðréttingar á afsláttarskala stórnotenda.

Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari segir að breytingar á gjaldskránni sem eru til umræðu þessa dagana í stjórnsýslunni varði skýrleika við mánðarlega innheimtu og og snúi fremur að verklagi starfsmanna, en breytingar á afslætti til greiðenda.

DEILA